Innlent

Vínbúðirnar heyra nú beint undir Steingrím

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Tveimur vínbúðum á höfuðborgarsvæðinu, í Kópavogi og Garðabæ, verður lokað vegna minni áfengissölu. Þá hefur stjórn ÁTVR verið lögð af og heyra vínbúðirnar beint undir fjármálaráðherra.

ÁTVR tók þá ákvörðun fyrr í haust að loka vínbúðinni við Garðatorg í Garðabæ frá og með 1. janúar á næsta ári. ÁTVR tilkynnti að í kjölfarið yrði hugað að framtíðarskipulagi vínbúða á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu stendur einnig til að loka vínbúðinni í Smáralind þegar leigusamningur vegna hennar rennur út á næstunni. Þá hefur lokun þriðju verslunnar verið skoðuð, en engin ákvörðun hefur þó verið tekin í þeim efnum.

Ástæðan er minni sala á áfengi, en eins og komið hefur fram í fréttum að undanförnu hefur heimabruggun færst í vöxt.

Í mars á síðasta ári var skipuð ný stjórn yfir ÁTVR. Samhliða því var skipaður starfshópur sem fékk það hlutverk að gera heildstæða úttekt á áfengislöggjöfinni og skilaði skýrslu í janúar síðastliðnum, en meðal tilaggna starfshópsins var að lækka áfengiskaupaaldur í 18 ár. Stefnt er að því að vinna að heildstæðri löggjöf á grundvelli tillagna starfshópsins á næstunni, samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu.

Stjórn ÁTVR var lögð niður fyrr á þessu ár og nú heyrir fyrirtækið beint undir fjármálaráðherra. Huginn Freyr Þorsteinsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sagði í samtali við fréttastofu í dag að í þessu fælist ekki breyting frá fyrri stefnu og að ráðuneytið hefði engin bein afskipti af rekstri fyrirtækisins.

Fréttastofa reyndi að ná tali af Ívari J. Arndal, forstjóra ÁTVR, við vinnslu fréttarinnar en hann svaraði ekki skilaboðum fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×