Innlent

Magma horfir til Kerlingarfjalla

Magma Energy á Íslandi hefur átt í óformlegum viðræðum við sveitarstjórn Hrunamannahrepps um rannsókn á virkjanakostum. Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma Energy á Íslandi, staðfestir að viðræður hafi átt sér stað. „Við erum einfaldlega að skoða hvar geta legið tækifæri til skynsamlegrar orkunýtingar í náinni framtíð," segir hann.

Sunnlenska fréttablaðið greindi nýverið frá áhuga félagsins og hafði eftir Ragnari Magnússyni, oddvita Hrunamannahrepps, að málið væri á „algjöru byrjunarstigi". Fyrirtækið bætist í hóp fleiri sem áhuga hafi á svæðinu nærri Kerlingarfjöllum.

Ásgeir segir gott samstarf við sveitarfélagið mikilvægt. „Það rekur hitaveitu og er með rannsóknarleyfi," segir hann, en á þó síður von á að ákvarðanir verði teknar í flýti, enda kosningar í vor. Þá séu menn meðvitaðir um varnagla í rammaáætlun um nýtingu orkusvæða hvað varði óröskuð svæði á borð við Kerlingarfjöll. HS Orka, þar sem Magma Energy er hluthafi, sé hins vegar, eftir nýafstaðna hlutafjáraukningu, í góðri stöðu til þess að ráðast í stór verkefni. „Það er jarðhiti í Kerlingarfjöllum, en svo er líka jarðhiti niðri á Flúðum og spurning hvað er að finna þar á milli. Það vita menn ekki nema rannsaka það," segir Ásgeir. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×