Innlent

Ráðfærir sig við lögfræðinga

Gagnagrunnur Jóns Jósefs sýndi að Baugsfeðgar voru tengdir á 809 vegu í íslensku viðskiptalífi. Fréttablaðið/stefán
Gagnagrunnur Jóns Jósefs sýndi að Baugsfeðgar voru tengdir á 809 vegu í íslensku viðskiptalífi. Fréttablaðið/stefán

Jón Jósef Bjarnason, sem bjó til gagnagrunn um tengsl manna í viðskiptalífinu, segir að Ríkisskattstjóri hafi vegið að mannorði sínu með fréttatilkynningu sem embættið sendi út í fyrrakvöld. Þar segir að til athugunar sé hvort Jón hafi tekið upplýsingar til að nota í gagnagrunninn í heimildarleysi en Jón er fyrrverandi starfsmaður Ríkisskattstjóra. Eins er upplýst í fréttatilkynningunni að einkahlutafélag Jóns Jósefs hafi ekki skilað frá sér ársreikningi undanfarin þrjú ár.

„Ég skil ekki af hverju hann er að setja þetta í blöðin,“ segir Jón Jósef. Hann segist hafa samið um aðgang að gögnunum og tekið fram til hvers hann væri að nota þau og að það tengdist ekki störfum hans hjá Ríkisskattstjóra.

Jón Jósef ætlar að ráðfæra sig við lögfræðinga um stöðu sína vegna tilkynningar Ríkisskattstjóra og annars sem málið varðar.

„Við erum ekkert að vega að Jóni,“ sagði Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. „Hann hefur ekki farið að persónuverndarlögum og það er til athugunar hvort hann hafi tekið gögnin án heimildar.“

Um það hvers vegna upplýsingar séu gefnar í tilkynningunni um ársreikninga einkahlutafélags Jóns Jósefs segir Skúli Eggert að Jón Jósef hafi talað fyrir auknu gagnsæi með því að kortleggja eigendur félaga og rekstur þeirra. Persónuvernd hefur nú mál Jóns Jósefs til meðferðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×