Innlent

Stjórnarskrá breytt fyrir ESB-aðild

Ingibjörg Sólrún.
Ingibjörg Sólrún.
Áttatíu daga stjórnin hyggst breyta stjórnarskrá á þann veg að Ísland getur á næsta kjörtímabili gengið í Evrópusambandið að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikilvæg breyting, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar. Varaformaðurinn segir stjórnina vera að tryggja að Evrópumálin læsist ekki inni á næsta kjörtímabili.

Evrópusambandsaðild er hvergi nefnd í verkefnaskrá 80 daga stjórnarinnar og eina tilvísunin til þessa mikla hitamáls er að Evrópunefnd skuli ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins og skila skýrslu 10 dögum fyrir kosningar. Í þeirri skýrslu eigi að vera mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum.

En þótt lítið fari fyrir því í verkefnaskránni þá mun núverandi ríkisstjórn engu að síður gera mikilvægar breytingar á stjórnarskrá sem leiða til þess að ef þjóð og alþingi kýs, þá getur Ísland sótt um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili.

Eins og staðan er núna þarf tvö þing með kosningum á milli til að breyta stjórnarskrá. 80 daga stjórnin ætlar hins vegar að breyta því svo að hægt verði að breyta stjórnarskrá með þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það þarf stjórnarskrárbreytingu til að ganga í ESB. Það þýðir að ef næsta ríkisstjórn hefur hug á að fara í aðildarviðræður, þá þarf hún ekki að senda sjálfa sig heim og boða til kosninga, heldur getur einfaldlega lagt aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæði.

Ingibjörg telur mikilvægt að sett verði ákvæði í stjórnarskránna fyrir komandi þingkosningar svo þjoðin geti hvenær sem er gert breytingar á stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu. „Það þýðir að þjóðin getur ákveðið að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum á næsta kjörtímabili ef hún svo kýs án þess að boðað sé til kosninga í millitíðinni."

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingar og annar tveggja formanna Evrópunefndarinnar, segir mikilvægt að breyta stjórnarskránni nú til að læsa Evrópumálin ekki inni næstu fjögur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×