„Við töluðum um það í gær og ætli það endi ekki með því að hann kæri," segir vinur piltsins sem staddur var ásamt nokkrum öðrum í verslun 10-11 í Grímsbæ í gærkvöldi þegar lögreglumaður tók 17 ára unglingspilt kverkataki.
Vinur piltsins tók atvikið upp á myndband sem birtist á Vísi í morgun. Hann segir lögregluna hafa handtekið vin sinn í kjölfarið og var hann fluttur niður á lögreglustöð, grunaður um þjófnað. Lögreglan sagðist fyrr í dag vera að skoða atvikið.
„Það var starfsmaður þarna sem hélt að við værum að stela. Hann hótaði síðan að hringja á lögregluna og við sögðumst vera til í að tala við hana enda vorum við ekki að gera neitt," segir pilturinn sem vildi ekki láta nafn síns getið. Hann segir lögregluna síðan hafa mætt á svæðið og spurt vin sinn hvað hann væri með í buxnastrengnum. „Hann sagði þetta bara vera símann sinn og sagðist ekki vera að stela neinu."
Skyndilega rífur lögregluþjónninn í vininn og segir honum ekki að vera með "þennan kjaft". Hægt er að sjá átökin sem þá upphófust hér. „Hann var síðan handjárnaður og fluttur í lögreglubíl niður á lögreglustöð. Hann sagði að lögreglan hefði setið ofan á maganum á sér í lögreglubílnum."
Eftir stutta yfirheyrslu var honum síðan ekið aftur að 10-11 þar sem bílinn hans var. Aðspurður um ástæður handtökunar fékk pilturinn þær útskýringar að hann hefði verið grunaður um þjófnað sem ekki hefði náðst að sanna.
Verslunarstjóri í versluninni sagði fyrr í dag að síðast hefði þurft að kalla til lögreglu í verslunina vegna láta í unglingum á sunnudaginn.
Vinurinn segir hinsvegar að þeir félagar hafi aldrei áður verið með læti í versluninni. „Við höfum heyrt um einhverja krakka sem hafa verið að reyna að fara í slag við starfsfólkið en það vorum ekki við."