Innlent

Ökukennarar ætla að fjalla um mál kærðs kollega

Andri Ólafsson skrifar

Guðbrandur Bogason, formaður Ökukennarafélags Íslands, segir að stjórn félagsins muni fjalla um mál ökukennara sem sex nemendur hafa kært fyrir kynferðislega misnotkun.

Guðbrandur hafði ekki heyrt af málinu þegar Vísir hafði samband við hann í dag en sagðist hins vegar líta það alvarlegum augum.

Guðbrandur vildi ekki svara hvort hann teldi rétt að kennarinn héldi áfram að taka til sín nemendur á meðan hann er grunaður um kynferðisbrot. Hann hallast þó frekar að því að réttara væri að kennarinn tæki sér frí frá störfum þar til niðurstaða fæst í málið.

"Í félaginu er hins vegar starfandi siðanefnd og ég geri ráð fyrir að hún taki eitthvað á þessu. Mér var hins vegar ekki kunnugt um að svona mál væri í gangi í augnablikinu og þess vegna höfum við ekkert fjallað um það. En ég held að í ljósi þessara frétta verðum við að ræða þetta mál í stjórninni," segir Guðbrandur.

Eins og Vísir sagði frá í dag er ökukennari í Reykjavík grunaður um að hafa misnotað kynferðislega sex nemendur sína. Nemendurnir hafa allir kært ökukennarann til lögreglunnar.

Samkvæmt heimildum Vísis hefur kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakað málið undanfarna mánuði og er sú rannsókn á lokasprettinum. Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti í samtali við Vísi í dag að mál líkt þessu væri inn á borði deildarinnar og rannsókn þess væri á lokastigi.

Rannsókn málsins hófst þegar sex drengir kærðu ökukennarann fyrir kynferðisbrot. Þeir sóttu allir ökutíma hjá manninum þegar þeir voru á sautjánda aldursári samkvæmt heimildum Vísis.

Þegar rannsókn málsins lýkur verður málið sent til Ríkissaksóknara og mun hann taka ákvörðun um hvort ákærur verði gefnar út á hendur ökukennaranum eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×