Innlent

Steingrímur: Ég held að Geir sé alveg ómarinn á öxlinni

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna hafnar því með öllu að hafa slegið til forsætisráðherra í umræðum á Alþingi í gær. „Nei nei, það er fjarri öllu lagi. Ég held að Geir Haarde sé algjörlega ómarinn á öxlinni," segir Steingrímur þegar að hann er spurður út í málið. „Enda legg ég það ekki í vana minn. Ég get tekið fast á mönnum með orðsins brandi en ég hef ekki lagt fyrir mig handalögmál í stjórnmálum," segir Steingrímur.

Það var í umræðum um vantrauststillögu á ríkisstjórnina sem umdeilt atvik náðist á vefmyndavélar Alþingis. „Björn Bjarnason bar á mig algjörlega óréttmætar sakir. Hann var í raun með eitthvað slúður um það að ég stæði sérstaklega gegn því að rannsóknarnefndin kæmist á koppinn. Ég sit náttúrulega ekkert þegjandi undan slíku kjaftæði frá honum," segir Steingrímur. Hann hafi því mótmælt því harkalega að Björn væri að dylgja um þetta enda hafi Björn ekki setið neina fundi um þetta mál. Steingrímur segir jafnframt að sér sé ekki kunnugt um að aðrir nefndarmenn beri þessa sögu.

Steingrímur segir að hann hafi svo gengið að Geir og spurt hvort þetta væri frá honum komið. Hann hafi hins vegar ekki slegið til hans.

Smelltu hér til að sjá myndskeið af atvikinu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×