Innlent

Nemandi braust inn í tölvukerfi Hagaskóla

Fjórtán ára pilti í 9.bekk Hagaskóla tókst að brjótast inn í tölvukerfi skólans og eyða öllum skrám á upplýsingavef sem nemendur og kennarar nota. Tölvukerfið liggur enn niðri. Lögreglan rannsakar nú málið en skólastjóri Hagaskóla segist líta brotið alvarlegum augum.

Forsvarsmenn Hagaskóla uppgötvuðu að brotist hefði verið inn í mentor, sem er upplýsingakerfi skólans, síðastliðinn laugardag. Nemendur og kennnarar nota kerfið og eru þar upplýsingar um ástundun, heimalærdóm nemenda, mætingu, athugasemdir kennara og fleira. Klukkan tíu um kvöldið fann lögreglan sökudólginn sem er í 9. bekk skólans.

Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir skólastjóri Hagaskóla segir mentor kerfið enn liggja niðri og það sé ónothæft í skólanum.

Framkvæmdastjóri Mentors segir kerfið harðlæst og ekki eigi að vera hægt að brjótast inn í það. Hins vegar sé lítið hægt að gera komist nemendur yfir lykilorð starfsmanna. Afrit séu til af öllum skrám sem nemandinn hafi eytt og nokkra daga taki að koma kerfinu í gagnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×