Innlent

Gríðarlegar umferðartafir í mótmælum vörubílstjóra í morgun

Gríðarlegar umferðartafir urðu í morgun þegar vörubílstjórar lokuðu Ártúnsbrekku í báðar áttir og sömuleiðis Reykjanesbraut í Kúagerði, til að mótmæla mikilli gjaldtöku ríkissjóðs af olíu og bensíni.

Margra kílómetra raðir bíla mynduðust á báðum stöðum og skarst lögreglan í leikinn. Lögreglan var með auka mannskap á vakt til að bregðast við aðgerðunum og um tíma tók hún Sturlu Jónsson, talsmann aðgerðanna, yfir í lögreglubíl en handtók hann ekki formlega. Þar upplýstist að ekki hafi staðið til að loka vegunum nema í klukkustund og komst umferð á aftur laust fyrir klukkan átta.

Sturla útilokar þó ekki að einhverjir bílstjórar grípi til einhverra aðgerða upp á sitt einsdæmi. Hann segir að vegfarendur, sem lentu í töfum, hafi almennt tekið aðgerðunum vel enda sé hátt eldsneytisverð líka að skerða kjör þeirra. Ekkert mun hafa bólað á viðbrögðum stjórnvalda, varðandi eldsneytisverðið, fyrir hádegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×