Innlent

Vilja að olíumálinu verði vísað frá

Tekist var á um það, í Héraðsdómi Reykjavíkur í allan dag, hvort vísa beri ákæru á hendur núverandi og fyrrverandi forstjórum stóru olíufélaganna frá dómi.

Núverandi og fyrrverandi forstjórarnir þrír krefjast þess að ákæra á hendur þeim vegna samráðs olíufélaganna verði vísað frá dómi og stóð málflutningur frá klukkna níu í morgun og langt fram eftir degi. Frávísunarkrafan var lögð fram við þingfestingu málsins 9. janúar síðastliðinn. Ákæran á hendur þeim Kristni Björnssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Geir Magnússyni, fyrrverandi forstjóra Esso, og Einari Benediktssyni, núverandi forstjóra Olís, er í 27 liðum. Hún lýtur meðal annars að samráði við gerð tilboða, markaðsskiptingu og samráði um ákvörðun verðs á söluvörum, afslætti, álagningu og viðskiptakjörum.

Lögmenn forstjóranna segja búið að leggja stjórnvaldsektir á olíufélögin og því megi ekki refsa tvisvar fyrir sama brotið. Á móti heldur ákæruvaldið því fram að félögin sjálf geti ekki brotið af sér heldur einstaklingar sem stjórna þeim. Og ef dæmt yrði til fangelsisrefsinar fyrir olíusamráð gætu félögin ekki setið af sér þann dóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×