Innlent

Fær ekki að klára yfirheyrslur yfir Jóni

Farið yfir gögn í Baugsmálinu.
Farið yfir gögn í Baugsmálinu. MYND/GVA

Sigurður Tómas Magnússon settur saksóknari í Baugsmálinu kvartaði yfir því að fá ekki að klára yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í dag. Dómari ákvað að að yfirheyrslum hans yfir Jóni yrði hætt um sinn klukkan 16.15 í dag. Arngrímur Ísberg dómari í byrsti sig við saksóknara og sagði að saksóknari gæti sjálfum sér um kennt að fá ekki lengri tíma til að yfirheyra Jón Ásgeir.

Dómari sagði saksóknara ekki hafa staðið við áætlanir sem hann hefði sjálfur gert. Sigurður Tómas Magnússon var ekki sáttur við það. Dómari sagði mjög ámælisvert að dagskráin hafi dregist eins mikið og raun ber vitni og sagði það mjög alvarlegt mál. Samkvæmt dagskrá setts ríkissaksóknara hafi yfirheyrslum yfir Jóni Ásgeir átt að ljúka á hádegi í gær.

Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeir er nú að spyrja skjólstæðing sinn vegna skemmtibátanna. Yfirheyrslum hans lýkur klukkan 18.

Áður hafði Jón Ásgeir neitað að hafa átt í bátunum Viking 1-3. Enginn samningur er til um lán sem Jón Gerald Sullenberger fékk frá fyrirtækinu. Jón Ásgeir segir Jón Gerald hafa fengið lánið til kaupa og viðhalds bátanna. Hann segir traust hafa verið milli manna.

Saksóknari spurði af hverju engir samningar hafi verið til milli Jóns Geralds og Gaums. Jón Ásgeir svaraði: "Ég tel að handaband hafi dugað."

Sigurður Tómas segir mikið ósamræmi í framburði Jóns Ásgeirs og annarra vitna sem tekin hefur verið skýrsla af í málinu.

Jón Ásgeir verður kallaður aftur fyrir dóminn síðar vegna ákæruliðs 19, en í honum er Tryggvi Jónsson einn ákærður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×