Innlent

Fischer að skákborðinu að nýju

Bobby Fischer sest að líkindum við skákborðið á ný á næstunni til þess að taka slembiskák við einn af sterkustu skákmönnum heims. Fornvinur Fischers, Borís Spasskí, kom ásamt rússneskum auðmanni hingað til lands til að sannfæra Fischer um ráðagerðina. Fischer hefur heitið því að tefla aldrei aftur en það á einungis við hefðbundna skák. Slembiskák, afbrigðið sem Fischer þróaði sjálfur, er annað mál. Spasskí og bandarísk-rússneski auðkýfingurinn Alex Titomirov komu óvænt til landsins í gærkvöldi til fundar við Fischer og fá hann til að samþykkja einvígi við einn sterkasta skákmann heims. Einar S. Einarsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands og einn þeirra sem unnu að lausn Fischers úr japönsku fangelsi, vill ekki greina frá því hver það er. Hann segir að fundað hafi verið um málið síðdegis en ekki gengið frá neinu. Einar segir Fischer hafa sýnt áhuga á þessu en eftir sé að semja um ýmis atriði, t.d. fjármuni og skilyrði hvers konar. Spasskí vildi ekki ræða við fjölmiðla en hann hélt ásamt Titomirov af landi brott síðdegis. Verði af einvíginu verður það hér á landi og Titomirov mun hafa boðið mjög há verðlaun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×