Innlent

Höfða mætti mál á hendur ríkinu

Einstaklingur sem telur á sér brotið getur hugsanlega höfðað mál gegn íslenska ríkinu verði nýja fjölmiðlafrumvarpið samþykkt á Alþingi og þannig sneitt hjá þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fara skal fram samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar, að sögn Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns. Hún telur að fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar brjóti í bága við stjórnarskrána. Dögg var einn þeirra lögmanna sem komu fyrir allsherjarnefnd í gær og gáfu álit sitt á því hvernig túlka beri stjórnarskrána með hliðsjón af nýju fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Dögg segir að löggjafarvaldið sé hjá Alþingi og forseta. "Eftir að lagafrumvarp hefur verið samþykkt á Alþingi reynir á forseta sem hinn aðila löggjafarvaldsins. Synji hann því samþykki skal boða til þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt skýru orðalagi 26. greinar stjórnarskrárinnar," segir Dögg. "Lagafrumvarp sem ekki hefur farið í gegnum þann lagasetningarferil sem stjórnarskráin segir fyrir um er ekki orðið varanlega að lögum. Í 26. grein stjórnarskrárinnar er ekki gert ráð fyrir því að lög sem forseti hefur synjað staðfestingar séu felld úr gildi með neinum öðrum hætti en í þjóðaratkvæðagreiðslu," segir Dögg. Sigurður Líndal lagaprófessor telur þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin hefði viðhaft í fjölmiðlamálinu brot á stjórnarskrá og segir þau "stjórnarskrársniðgöngu". Jón Steinar Gunnlaugsson telur að "Alþingi fari með löggjafarvald á Ísland nema það sé með berum orðum af því tekið í stjórnarskránni".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×