Upp­gjörið: Olympiacos-Valur 31-27 [4-5] | Vals­menn Evrópu­bikar­meistarar eftir sigur í víta­keppni

Andri Már Eggertsson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fjögur mörk í leiknum og svo úr sínu víti í vítakastkeppninni.
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fjögur mörk í leiknum og svo úr sínu víti í vítakastkeppninni. vísir/diego

Olympiacos vann leikinn 27-31 en Valur vann heimaleikinn einnig með fjórum mörkum og það þurfti vítakeppni til að krýna Evrópubikarmeistara. Valur skoraði úr öllum fimm vítunum en Savvas Savvas klikkaði á síðasta vítinu. 

Leikmenn Olympiacos mættu með blóð á tönnunum eftir að hafa byrjað leikinn fjórum mörkum undir þar sem Valur vann fyrri leikinn með fjögurra marka mun.

Valsmenn voru í miklum vandræðum sóknarlega og liðið skoraði aðeins eitt mark á fyrstu sjö mínútunum. Valsmenn voru klaufar og töpuðu 4 boltum á fimm mínútum.

Eftir níu mínútur tók Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, leikhlé í stöðunni 6-2 og þá höfðu heimamenn unnið upp fjögurra marka forskot Vals.

Valsmenn enduðu fyrri hálfleik afar illa. Liðið tapaði samtals ellefu boltum í fyrri hálfleik sem var alltof mikið. Heimamenn gerðu síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og voru fimm mörkum yfir 16-11.

Magnús Óli Magnússon komst ekki á blað í fyrri hálfleik og tók það til sín. Magnús byrjaði með látum í seinni hálfleik og skoraði fyrstu fjögur mörk Vals úr fjórum skotum. Á meðan Magnús Óli var að gera allt sóknarlega datt varnarleikur Vals niður og gestirnir söfnuðu tveggja mínútna brottvísunum sem var blóðugt.

Valsmenn sýndu þvílíkan karakter eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og neituðu að gefast upp. Þegar 19 sekúndur voru eftir tók Óskar Bjarni leikhlé og stillti upp í lokasókn fimm mörkum undir. Stjarna síðari hálfleiks, Magnús Óli, skoraði sem varð til þess að eftir tvo leiki var staðan 57-57.

Það þurfti því að útkljá Evrópubikarmeistara með vítakeppni. Valsmenn skoruðu úr öllum fimm vítunum en Savvas Savvas sem var markahæstur með 10 mörk í leiknum þrumaði boltanum í slána og tryggði Val Evrópubikarmeistaratitilinn.

Atvik leiksins

Fimmta víti Savvas Savvas sem endaði í slánni og tryggði Val Evróputitilinn.

Stjörnur og skúrkar

Allir leikmenn Vals eru stjörnur. Spiluðu fjórtán Evrópuleiki og töpuðu aðeins einum en vinna hann samt í vítakeppni. 

Benedikt Gunnar Óskarsson, Magnús Óli Magnússon, Ísak Gústafsson, Allan Norðberg og Agnar Smári Jónsson sýndu allir stáltaugar og skoruðu úr víti í vítakeppninni. 

Sóknarmenn Vals í fyrri hálfleik voru skúrkar. Sóknarleikurinn var ekki góður og Valsmenn voru miklir klaufar og voru með ellefu tæknifeila á 30 mínútum sem var allt of mikið. Liðið var einnig að klikka á dauðafærum og sóknarnýting Vals var 23 prósent.

Dómararnir

Þeir Vladimir Jovandic og Marko Sekulic dæmdu leik kvöldsins og koma frá Serbíu.

Það var sérstakt atvik í fyrri hálfleik þegar það myndaðist smá hiti milli Nikolaos Passias og Ísaks Gústafssonar. Þeir fengu báðir tveggja mínútna brottvísun en það hefði frekar átt að róa þá niður og gefa þeim báðum aðvörun.

Dómgæslan var sérstök á köflum í síðari hálfleik en ekkert sem hafði áhrif á leikinn.

Stemning og umgjörð

Leikurinn var spilaður í Friðar- og Vináttuhöllin sem körfuboltalið Olympiacos spilar sína heimaleiki. Höllin tekur 12.000 manns og er svakaleg gryfja. Lætin í Grikkjunum heyrðust vel en um 5000 manns mættu í höllina. Valsmenn sýndu því þvílíkan karkater að vinna í vítakeppni í þessari gryfju.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira