Körfubolti

Lög­reglan kórónaði ömur­legan dag hjá Kane

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kane á ferðinni í leiknum í gær.
Kane á ferðinni í leiknum í gær. vísir/diego

Grindvíkingurinn DeAndre Kane átti mjög erfiðan dag í gær. Fyrst gat hann ekkert í leik Vals og Grindavíkur og svo var hann stöðvaður af lögreglunni.

Grindavík steinlá, 80-62, í leik þrjú gegn Val í úrslitum Subway-deildar karla í gær og Valur leiðir því einvígið 2-1 og getur orðið Íslandsmeistari með sigri í næsta leik.

Kane er lykilleikmaður Grindavíkur en hann átti hauskúpuleik í gær. Hann hitti aðeins úr tveimur af átján skotum sínum í leiknum. Hann reyndi við þrettán þriggja stiga skot í leiknum en ekki eitt þeirra fór ofan í körfuna. Það er Íslandsmet.

Ömurlegum degi Kane lauk þó ekki í Valsheimilinu samkvæmt heimildum Vísis. Er hann var á heimleið eftir leikinn var hann nefnilega stöðvaður af lögreglunni.

Hann var þó ekki að keyra of hratt heldur var hann enn á nagladekkjum. Lögreglan tók af honum skýrslu, sektaði hann og sleppti svo.

Sársvekktur Kane fór því heim með tap á bakinu og 80 þúsund krónum fátækari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×