Erlent

Vill þjóðar­at­kvæða­greiðslu um sjálf­stæði Græn­lands

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Frá grænlensku höfuðborginni Nuuk.
Frá grænlensku höfuðborginni Nuuk. Getty

Aqqalu C. Jerimiassen, formaður grænlenska stjórnarandstöðuflokksins Atassut, segir tímabært að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Grænlands frá Danmörku.

Hann segir að það sé spurning sem almenningur á Grænlandi þurfi að fá tækifæri til að svara.

„Það er tímabært að brjóta þennan vítahring og leggja spurninguna beint í hendur fólksins,“ segir Aqqalu samkvæmt grænlenska miðlinum Sermitsiaq.

„Við þurfum þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæðisspurninguna svo við getum afgreitt umræðuna í eitt skipti fyrir öll.“

Hann segir að það kunni oft að virðast sem sjálfstæði og lýðveldismyndun séu einu pólitísku umræðurnar á Grænlandi. Í áratugi hafi grænlenska þjóðin verið föst í síendurtekinni og sískautaðri rökræðu um málið.

„Umræðan hefur klofið þjóðina og tekið athygli frá mörgum alvarlegum málum sem við ættum að ræða,“ segir hann.

Hann segist vilja halda þjóðaratkvæðagreiðsluna á sama tíma og næstu kosningar til Inatsisartut, grænlenska þingsins, til að sóa ekki óþarfa skattfé.

„Ef meirihlutinn greiðir atkvæði með sjálfstæðu Grænlandi, þá þýðir það ekki að það verði að veruleika í sömu andrá. En það verður opinber og lögbundin viljayfirlýsing. Þá losnum við við þetta endalausa með og á móti lýðveldismyndun og tökum næsta skref.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×