Erlent

Breskur hjúkrunar­fræðingur grunaður um að hafa myrt sjö unga­börn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hjúkrunarfræðingurinn er grunaður um að hafa banað sjö börnum og reynt að myrða tíu til viðbótar.
Hjúkrunarfræðingurinn er grunaður um að hafa banað sjö börnum og reynt að myrða tíu til viðbótar.

Réttarhöld eru hafin á Bretlandseyjum yfir hjúkrunarfræðingi sem er sakaður um að hafa myrt sjö nýfædd börn og reynt að myrða tíu önnur á Countess of Chester-sjúkrahúsinu í Chester.

Lucy Letby, 32 ára, er grunuð um að hafa banað börnunum, fimm drengjum og tveimur stúlkum, með því að sprauta þau ýmist með insúlíni eða súrefni. Í nokkrum tilvikum mun hún hafa gert allt að þrjár tilraunir til að myrða börnin.

Lögregla var kölluð til þegar dauðsföllum á ungbarnadeild sjúkrahússins fór skyndilega að fjölga. 

Rannsókn leiddi í ljós að atvikin áttu það sameiginlegt að einn hjúkrunarfræðingur var á vakt í öllum tilvikum; Lucy Letby. Þá áttu dauðsföllin sér stað á næturna þegar Letby var á næturvöktum en eftir að hún var færð á dagvaktir fóru atvikin að eiga sér stað á daginn.

Letby neitar sök.

Áætlað er að réttarhöldin muni standa yfir í allt að sex mánuði.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×