Klinkið

Þórey ráðin fjármálastjóri VAXA

Ritstjórn Innherja skrifar
Þórey var áður framkvæmdastjóri fjármálasviðs Bláa lónsins í átta ár.
Þórey var áður framkvæmdastjóri fjármálasviðs Bláa lónsins í átta ár.

Þórey G. Guðmundsdóttir, sem starfaði áður um árabil sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Bláa lónsins, hefur verið ráðin fjármálastjóri hjá hátæknigróðurhúsinu VAXA. Mun hún taka við starfinu innan fárra vikna.

Greint var frá ráðningu Þóreyjar til VAXA í skýrslu tilnefningarnefndar Festi, sem var birt í Kauphöllinni í gær, en nefndin lagði þar meðal annars til að hún yrði áfram í stjórn fyrirtækisins. Þórey, sem er hagfræðingur að mennt, kom fyrst inn í stjórn Festi í marsmánuði árið 2020.

Þórey lét af störfum sem fjármálastjóri Bláa lónsins síðastliðið haust eftir að hafa starfað hjá ferðaþjónustufyrirtækinu samfellt í átta ár. Þar áður var hún forstöðumaður hagdeildar Samskipa og á árunum 2004 til 2011 fór hún fyrir fjármálasviði Straums fjárfestingarbanka.

VAXA stundar svonefndan lóðréttan landbúnað og framleiðir afurðir undir samnefndu vörumerki. Stærsti hluthafi VAXA, með um 40 prósenta hlut, er félag á vegum Björgólfs Thors Björgólfssonar, Anda Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, sem eru oftast kenndir við fjárfestingarfélagið Novator.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×