Erlent

„Ofbeldisfullur öfgamaður“ skotinn til bana eftir hnífaárás í stórmarkaði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja Sjálands ávarpar þjóð sína á blaðamannafundi í dag.
Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja Sjálands ávarpar þjóð sína á blaðamannafundi í dag. Getty/Robert Kitchin

Lögregla á Nýja Sjálandi skaut mann til bana sem gerði hnífaárás í stórmarkaði í borginni Auckland í dag. Jacinda Ardern forsætisráðherra lýsti manninum sem „ofbeldisfullum öfgamanni“ og sagði árásina hryðjuverk.

Þá greindi hún einnig frá því á blaðamannafundi eftir árásina að maðurinn, sem var ríkisborgari Sri Lanka, hefði verið undir stöðugu eftirliti nýsjálenskra yfirvalda eftir að áhyggjur vöknuðu af því að hann aðhylltist hugmyndafræði hryðjuverkasamtakanna ISIS. 

Sex særðust í árásinni, þar af þrír alvarlega. Ardern sagði manninn hafa fallið áður en mínúta var liðin af árásinni. Stjórnvöld hafa þó þegar verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki aðhafst neitt í málum mannsins áður en hann lét til skarar skríða. 

Ardern fordæmdi árásina á blaðamannafundi í dag. „Þetta var ofbeldisfull árás. Hún var tilgangslaus og mér þykir svo fyrir því að hún hafi orðið,“ sagði forsætisráðherrann.

Sjónarvottar hafa lýst gríðarlegri geðshræringu sem greip um sig meðal fólks sem statt var í stórmarkaðnum þegar árásin var gerð. „Fólk hljóp út, í geðshræringu, öskrandi, æpandi, hrætt,“ hefur staðarmiðillinn Stuff NZ eftir vitni, sem kvaðst jafnframt hafa séð aldraðan mann liggjandi á gólfi búðarinnar með stungusár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×