Erlent

Eldfimt ástand í Minnesota

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mótmælandi kallar að lögreglu fyrir utan lögreglustöðina í Brooklyn Center í nótt.
Mótmælandi kallar að lögreglu fyrir utan lögreglustöðina í Brooklyn Center í nótt. AP/Christian Monterrosa

Útgöngubanni var aflétt í morgun í borginni Brooklyn Center í Minnesota í Bandaríkjunum eftir að lögreglu og mótmælendum lenti saman í nótt. Reiði ríkir á meðal borgarbúa vegna ásakana um að lögregla hafi skotið svartan karlmann til bana.

Enn á ný fylkja bandarískir mótmælendur liði undir slagorðinu „svört líf skipta máli“. Lögreglan í Brooklyn Center stöðvaði för Dauntes Wright, tvítugs svarts ökumanns, í gær og skaut hann til bana. 

Fjölskylda Wright segir hann hafa verið stoppaðan vegna lyktarspjalds sem hékk í baksýnisspeglinum en lögregla segist hafa stoppað Wright vegna umferðarlagabrota.

Þá segist lögregla borgarinnar hafa komist að því að handtökuskipan á hendur Wright hafi verið í gildi. Reynt hafi verið að handtaka hann en hann sest aftur inn í bíl sinn áður en hann var svo skotinn.

Samkvæmt lögreglu söfnuðust hundruð mótmælenda saman nærri lögreglustöð borgarinnar og köstuðu grjóti en flestir voru farnir heim aftur laust eftir miðnætti að staðartíma.

Rannsókn á dauða Dauntes Wright hefur verið sett af stað en samfélagið í Minnesota er á nálum þessa dagana þar sem réttarhöldin yfir Derek Chauvin standa yfir í Minneapolis.

 Fyrrverandi lögregluþjónninn Chauvin er sakaður um að hafa myrt hinn svarta George Floyd í fyrra. Dauði Floyds varð kveikjan að umfangsmiklum mótmælum gegn kerfisbundnum rasisma og lögregluofbeldi víðs vegar um heiminn.


Tengdar fréttir

Brestir í „bláa veggnum“

„Að leggja hann í jörðina, með andlitið niður og setja hnéð á hálsinn á honum í þetta langan tíma er algjörlega óréttlætanlegt,“ sagði einn lögreglumaður. „Þetta er ekki það sem við æfum,“ sagði annar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×