Erlent

Börn meðal þeirra sem létust þegar bátur sökk á Ermar­sundi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá björgunaraðgerðum í dag.
Frá björgunaraðgerðum í dag. AP

Fjórir flóttamenn, þar af tvö börn, átta og fimm ára, eru látnir eftir að bátur sem átti að fyltja þá til Bretlands sökk. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Umfangsmikil björgunaraðgerð hófst eftir að sást til bátsins nálægt Dunkerque Frakklandi, og ljóst var að farþegar hans væru í háska. Fimmtán farþeganna hafa verið fluttir til aðhlynningar á sjúkrahús en björgunar- og leitaraðgerðum er ekki lokið þegar þetta er skrifað.

Aftakaveður hefur verið á Ermarsundi í dag og hefur það gert viðbragðsaðilum erfiðara fyrir í aðgerðum sínum.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að hugur hans sé hjá aðstandendum hinna látnu.

„Við bjóðum frönskum yfirvöldum allan þann stuðning sem þörf er á meðan þau rannsaka þetta hræðilega atvik, og munum gera allt sem við getum til þess að hafa hendur í hári þeirra harðsvíruðu glæpagengja sem nýta sér berskjaldað fólk í neyð með því að bjóða upp á þessar hættulegur ferðir,“ sagði Johnson, en saksóknarar í Dunkerque hafa hafið rannsókn á tildrögum þess að báturinn sökk.

Yfir 7.400 flóttamenn hafa komið til Bretlands yfir Ermarsund það sem af er ári. Sumir bátanna eru búnir litlum sem engum öryggisbúnaði og þeir sem bjóða upp á ferðirnar, gegn gjaldi, skeyta oft engu um hámarksfjölda fólks sem bátarnir geta borið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×