Innlent

Banaslys í Tyrklandi: Drengurinn kominn til aðstandenda

Foreldrar drengsins, þau Dagbjört Þóra Tryggvadóttir og Jóhann Árnason, létust bæði í slysinu.
Foreldrar drengsins, þau Dagbjört Þóra Tryggvadóttir og Jóhann Árnason, létust bæði í slysinu.
Litli drengurinn sem lifði af bílslysið í Tyrklandi í fyrradag er kominn í hendur fjölskyldu sinnar. Foreldrar drengsins létust bæði í slysinu, en málið hefur vakið mikla athygli ytra.

Líkt og fram hefur komið í fréttum lenti fjölskyldan í hörmulegu bílslysi um miðjan dag á miðvikudag skammt frá bænum Mugla á Tyrklandi. Þau höfðu leigt sér bílaleigubíl eftir að hafa verið í fríi á ferðamannastaðnum Marmaris.

Svo virðist vera sem mikil bleyta á veginum hafi gert það að verkum að þau misstu stjórn á bílnum og lentu framan á sendiferðabíl sem ók úr gagnstæðri átt. Ökumaður og aldraður farþegi sendibílsins slösuðust minniháttar, en foreldrarnir létust báðir í slysinu.

Drengurinn litli, sem er rúmlega sex mánaða, slapp hinsvegar ómeiddur frá slysinu og dvaldi fyrst um sinn á spítala, en ræðismaður Íslands í Izmir sótti drenginn í gærmorgun.

Seint í gærkvöldi komu síðan amma og afi drengsins ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum til Tyrklands og fengu drenginn afhentan í gærkvöldi. Ekkert amar að drengnum og líður honum vel að sögn Utanríkisráðuneytisins.

Málið hefur vakið mikla athygli ytra, og hafa tyrkneskir fjölmiðlar flutt fréttir af drengnum sem kallaður hefur verið kraftaverkabarnið. Ljósmyndarar hafa fylgt honum hvert fótmál, auk þess sem hann var á forsíðum dagblaða í gærmorgun. Óvíst er hvenær fjölskyldan kemur aftur heim til Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×