Erlent

Nærbuxur Maddoffs boðnar upp

Bernie Maddoff er einhver svakalegasti fjársvikari sögunnar.
Bernie Maddoff er einhver svakalegasti fjársvikari sögunnar.

Nærbuxur og inniskór fjárglæframannsins Bernie Maddoffs eru meðal fimmhundruð hluta sem verða boðnir upp á laugardaginn í New York.

Uppboðshaldarinn vonast til þess að selja alla munina en þetta er annað uppboðið sem er haldið á eignum þessa alræmda fjársvikamanns sem var dæmdur í 150 ára fangelsi fyrir að stela milljörðum dollara í flókinni svikafléttu.

Auk undirfata Maddoffs verður Steinway píanóið hans boðið upp. Þá verða einnig Prada-náttbuxur eiginkonu Maddoffs boðnar upp auk trúlofunarhrings sem hann gaf henni.

Sennilega verður trúlofunarhringurinn dýrasti munurinn sem verður sleginn á uppboðinu en uppboðshaldari vonast til þess að fá um 400 þúsund dollara fyrir hringinn.

Síðasta uppboðið á eignum Maddoffs var haldið fyrir ári en þá seldust allir munirnir sem voru boðnir upp.

Alls voru hlutir boðnir upp fyrir milljón dollara og vonast bandaríska ríkið, sem stendur á bak við uppboðið, til þess að endurtaka leikinn nú.

Gert er ráð fyrir því að safnarar muni fjölmenna á uppboðið enda svik Maddoffs einhver þau stærstu sem um getur í Bandaríkjunum.

Meðal muna sem safnara eiga eftir að slást um eru inniskór í eigu Maddoffs með gullskreyttu fangamarki hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×