Innlent

Ný ríkisstjórn getur ógilt varnarsamninginn við Noreg án skaða

MYND/Brink

Ný ríkisstjórn getur fallið frá samningi Íslands og Noregs um samstarf í varnar- og öryggismálum án mikils skaða að sögn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna. Hann hefur boðað harðorða bókun gegn samninginum í utanríkismálanefnd Alþingis.

„Ný stjórnvöld geta aftengt þetta mál ef svo sýnist án mikils skaða," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, í samtali við Vísi.„Þetta samkomulag er ekki þjóðréttarlega bindandi plagg þó vissulega séu gefin í því fyrirheit og vilyrði sem menn myndu telja að gætu verið bindandi."

Steingrímur segist vera bundinn trúnaði varðandi innihalds samningsins en hann var kynntur fyrir utanríkismálanefnd Alþingis í gær. Hann hefur boðað harorða bókun gegn samninginum um leið og trúnaðinum verður aflétt eftir undirritun á morgun. „Ég er ósammála því að þetta sé meðhöndlað sem ríkisleyndarmál. Það væri heiðarlegra að málin væru kynnt fyrir þjóðinni áður en allt er um garð gengið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×