Sport

Chris Webber til 76ers

Framherjinn Chris Webber hefur gengið til liðs við Philadelphia 76ers frá Sacramento Kings í NBA-deildinni í körfuknattleik. 76ers fengu auk Webber, framherjana Matt Barnes og Michael Bradley.  Sacramento fær til sín í skiptunum þá Brian Skinner, Kenny Thomas og Corliss Williamson, sem allir eru framherjar. Ljóst þykir að Webber muni styrkja lið 76ers verulega, en hann hefur fimm sinnum verið valinn í stjörnuliðið og skorar yfir 20 stig og hirðir tæp 10 fráköst að meðaltali í leik.  Þetta verður í fyrsta skipti sem Allen Iverson hjá Philadelphia fær stórstjörnu til að leika sér við hlið í liðinu og þessi skipti bæta möguleika liðsins á að ná inn í úrslitakeppnina í austurdeildinni til muna. Webber hafði á dögunum látið í ljós óánægju sína með að leika fyrir lið Kings, en það var ekki í fyrsta skipti sem sló í brýnu milli hans og forráðamanna liðsins.  Hann hefur átt við þrálát meiðsli að stríða undanfarin ár, en hefur engu að síður verið Sacramento liðinu mjög mikilvægur.  Talið er víst að liðið hafi ákveðið að skipta honum í burtu núna, til að búa til pláss undir launaþakinu, því samningur Webbers er mjög stór og er talið að forráðamenn Kings ætli að reyna að krækja sér í yngri leikmenn í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×