Viðskipti erlent

Loka stórum hluta Kastrup-flug­vallar

Atli Ísleifsson skrifar
24 brottfararhliðum verður lokað frá og með 25. nóvember.
24 brottfararhliðum verður lokað frá og með 25. nóvember. Getty

Líkt og á nær öllum flugvöllum heims hefur flugumferð á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn dregist verulega saman á tímum heimsfaraldursins. Stjórnendur flugvallarins hafa nú tilkynnt að stórt svæði, um 40 prósent flugstöðvasvæðisins, verði lokað tímabundið.

Í tilkynningu frá flugvellinum kemur fram að með því að loka svæðunum verði hægt að spara umtalsverðar fjárhæðir, meðal annars vegna minni rafmagnsnotkunar, viðhalds og hreingerninga.

Ákvörðunin felur í sér að frá og með 25. nóvember næstkomandi verði 24 brottfararhliðum skellt tímabundið í lás.

„Sérhver króna sem hægt er að spara skiptir sköpum á tímum þar sem flugvöllurinn hefur misst nokkurn veginn allar tekjur sínar, segir Christian Poulsen, rekstrarstjóri á Kastrup.

Lokunin nær til svæða í Flugstöð 2 á Kastrup-flugvelli.Kastrup

Lokunin mun gilda að minnsta kosti til ársins 2021, svo fremi sem farþegafjöldinn sem fer um völlinn aukist verulega á næstu vikum.

Í síðustu viku var greint frá því að lokað hafi verið á áætlunarflug til og frá vellinum milli miðnættis og sex á morgnana.

Fyrir heimsfaraldurinn fóru um 83 þúsund farþegar um Kastrup daglega, en nú stendur fjöldinn í um 5.600 að meðaltali á dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×