Innlent

Lífsýni úr bílnum er úr Birnu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bíllinn var dreginn af bílastæði í Hlíðasmára í Kópavogi í hádeginu á þriðjudag.
Bíllinn var dreginn af bílastæði í Hlíðasmára í Kópavogi í hádeginu á þriðjudag. vísir
Rannsókn á lífsýni úr rauðri Kia Rio-bifreið sem lögregla lagði hald á í Kópavogi í liðinni viku í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur sýnir að lífsýnið er hennar. Lögreglan telur því að fyrir liggi staðfesting á því að Birna hafi verið í bifreiðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grími Grímssyni, yfirlögregluþjóni sem stýrir rannsókninni á hvarfinu.

Tilkynningin er eftirfarandi:

Svo sem kunnugt er lagði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hald á rauða Kia Rio bifreið vegna rannsóknar málsins.  Lífsýni úr bifreiðinni voru send utan til rannsóknar og liggur nú fyrir niðurstaða þeirrar rannsóknar þess efnis að lífsýnið er úr Birnu Brjánsdóttur og telur lögregla því að fyrir liggi staðfesting á því að hún hafi verið í bifreiðinni.

Gengið er út frá því við rannsókn málsins að um sé að ræða sama bíl og sést í eftirlitsmyndavélum við Laugaveg 31 á sama tíma og Birna hverfur úr þeim vélum. Telur lögregla að Birna hafi farið upp í bílinn við Laugaveg.

Tveir skipverjar af grænlenska togaranum Polar Nanoq sitja í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að hvarfi Birnu. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að skipverji af togaranum hafi verið með rauðu Kia Rio-bifreiðina sem haldlögð var á leigu á þeim tíma sem Birna hvarf. 

Fréttin var síðast uppfærð 11:57.


Tengdar fréttir

Lögreglan engu nær um ferðir rauða bílsins á laugardagsmorgun

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, segir lögregluna engu nær um ferðir rauða Kia Rio-bílsins á laugardagsmorgun milli klukkan 7 og 11:30. Á föstudag óskaði lögregla eftir myndefni úr bílum sem voru á ferð á þessum tíma á stóru svæði á suðvesturhorninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×