Innlent

Tveir grunaðir um að hafa keypt vændi af 14 ára pilti

Tveir fullorðnir karlmenn eru enn til rannsóknar vegna gruns um að hafa keypt vændi af fjórtán ára dreng. Þriðji maðurinn var fyrir helgina dæmdur fyrir að kaupa vændi af drengnum. Móðir piltsins telur þann dóm of vægan.

Umdeildur dómur féll í Héraðsdómi Vesturlands fyrir helgina þar sem „vel gefinn og vel gerður" karlmaður var fundinn sekur um að kaupa vændi af fjórtán ára dreng.

Maðurinn var dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi og þótti það honum til refsilækkunar að hafa verið „afhjúpaður með miklum afleiðingum fyrir hann og fjölskyldu hans".

Ríkissaksóknari hefur ekki ákveðið hvort dómnum verður áfrýjað.

Drengurinn hefur átti við vímuefnavanda að stríða og er nú í meðferð. Þar hefur hann ekki aðgang að fjölmiðlum og hefur honum ekki verið greint frá dómnum. Móðir hans segist í samtali við fréttastofu vera ósátt við dóminn og hafa áhyggjur af því hvaða áhrif það hefur á meðferð sonarins og sjálfsmynd hans að heyra að dómstólar líti á fullorðinn mann sem keypti af honum vændi, sem fórnarlamb.

Tveir aðrir menn á fimmtugs og sextugsaldri eru grunaðir um að hafa keypt vændi af drengnum, annar þeirra greiddi honum með peningum en hinn með fíkniefnum. Mennirnir eru báðir búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Annar hefur þegar verið ákærður og bíður málið þingfestingar. Hitt er enn á borði ríkissaksóknara sem á eftir að taka ákvörðun um hvort ákæra verður gefin út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×