Innlent

Barnshafandi konum sagt upp eftir stöðufærslur á Facebook

Mynd/ afp.
Mynd/ afp.
Nokkur dæmi eru um það að konur hafi misst vinnuna eftir að hafa tilkynnt að þær væru barnshafandi á Facebook-síðum sínum áður en þær tilkynntu vinnuveitendum sínum það formlega. Vinnuveitendurnir hafi í kjölfarið sagt þeim upp störfum.

„Ef uppsögnin á sér stað á undan formlegri tilkynningu er nánast ómögulegt að sýna fram á að uppsögn sé með óeðli­legum hætti," segir Elías Magnússon, forstöðumaður kjarasviðs VR. Þar hafa komið upp nokkur mál af þessu tagi. Ólöglegt er að segja upp barnshafandi konum en í þessum málum er erfitt að sanna að vinnuveitendur hafi haft vitneskju um málið. „Það er búið að eyðileggja málið áður en það kemur til okkar. Þetta eru þannig mál að viðkomandi er í mjög erfiðri stöðu." Ekkert þessara mála hefur verið formlega skoðað hjá stéttarfélaginu, að sögn Elíasar.

Harpa Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjaramála hjá Eflingu, segir að mál af þessu tagi hafi einnig komið á borð stéttarfélagsins. „Eins og þessu var lýst var atvinnurekanda kunnugt um að viðkomandi starfsmaður væri orðinn barnshafandi og með þá vitneskju er honum óheimilt að segja honum upp."

Harpa segir að einnig beri meira á því að fólk setji ósæmilegar athugasemdir í tengslum við vinnu sína á Facebook og sé sagt upp í kjölfarið.

„Almennt hvetjum við félagsmenn okkar til þess að fjalla ekki um vinnu sína á Facebook." Elías tekur í sama streng og segir Facebook mjög varasamt og fólk skuli alltaf hugsa sig vel um áður en færslur séu settar þar inn. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×