Erlent

Réðust gegn sam­göngu­inn­viðum til að hefna fyrir glæpa­höfðingja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hefur átt fullt í fangi í baráttunni gegn glæpahópum í Rio de Janeiro.
Lögregla hefur átt fullt í fangi í baráttunni gegn glæpahópum í Rio de Janeiro. epa/Andre Coelho

Vopnaðir glæpahópar í Rio de Janeiro í Brasilíu eru sagðir hafa kveikt í að minnsta kosti 36 strætisvögnum, fjórum sporvögnum og lest til að hefna fyrir háttsettan leiðtoga sem var drepinn af lögreglu.

Cládio Castro, ríkisstjóri Rio de Janeiro, hefur heitið því að grípa til afdráttarlausra aðgerða gegn hópunum eftir hina fordæmalausu árás gegn samgönguinnviðum borgarinnar.

Matheus da Silva Rezende, sem var kallaður „Stríðshöfðinginn“, var drepinn af sérsveitum en hann ku hafa verið náfrændi Luis Antonio da Silva Braga, eins alræmdasta foringja hinna vopnuðu glæpahópa.

Glæpahóparnir voru upphaflega stofnaðir sem nokkurs konar öryggishópar í samfélögum borgarinnar en liðsmenn þeirra voru gjarnan lögreglumenn og fangaverðir. Smám saman umbreyttust þeir í skipulögð glæpasamtök og eru sagðir hafa sterk pólitísk ítök.

Hóparnir eru sagðir hafa lagðir undir sig stór svæði á síðustu tveimur áratugum og stjórna svæði sem er á stærð við Birmingham á Bretlandseyjum, þar sem um 1,7 milljón manna býr.

Myndskeið á samfélagsmiðlum sýna farþega yfirgefa vagn á sama tíma og glæpamenn búa sig undir að kveikja í honum. Þá sést þykkur reykjarmökkur stíga til lofts.

Árásirnar áttu sér stað í níu hverfum, þar sem um milljón manns búa. Tólf hafa verið handteknir og verða ákærðir fyrir „hryðjuverk“ að sögn ríkisstjórans. „Hið illa mun ekki sigra hið góða,“ sagði hann en sérfræðingar segja ástandið hins vegar til marks um ráðaleysi yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×