Erlent

Gísla­töku­maður skotinn til bana af lög­reglu í Noregi

Atli Ísleifsson skrifar
Gíslatökumaðurinn var fluttur særður á háskólasjúkrahúsið í Stafangri þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Gíslatökumaðurinn var fluttur særður á háskólasjúkrahúsið í Stafangri þar sem hann var úrskurðaður látinn. Getty

Lögregla í Stafangri í Noregi skaut í gærkvöldi karlmann á fimmtugsaldri til bana eftir að sá hafði rænt bíl, tekið ökumanninn í gíslingu og skotið í átt að lögreglu. Lögreglumaður og gíslinn særðust einnig í skotbardaganum.

Norskir fjölmiðlar segja frá því að atvikið hafi átt sér stað um klukkan 22:30 að staðartíma í gærkvöldi. Maðurinn hafði þar ekið bíl sínum og rekist á annan bíl þar sem í voru tveir fullorðnir og tvö börn.

Eftir áreksturinn hafi maðurinn, sem var vopnaður, farið inn í annan bíl og tekið ökumanninn í gíslingu. Lögregla hafði svo fljótlega upp á bílnum og veitti honum eftirför.

Maðurinn skaut þá úr byssu sinni, út um glugga bílsins og í átt að lögreglu, að því er segir í fréttatilkynningu frá vettvangsstjóra lögreglu í nótt. Lögregla skaut á móti og lauk bardaganum með því að maðurinn, gíslinn og einn lögreglumaður höfðu allir orðið fyrir skoti. 

Gíslatökumaðurinn var fluttur særður á háskólasjúkrahúsið í Stafangri þar sem hann var úrskurðaður látinn.

Fram kemur í frétt NRK að lögreglumaðurinn hafi verið skotinn í bringuna en skotið hafnaði í skotheldu vesti sem hann klæddist svo hann slasaðist ekki. Ennfremur segir að gísl mannsins hafi einnig orðið fyrir skoti, en ekki særst alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×