Viðskipti erlent

Stjórn Twitter samþykkir kauptilboð Musk

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Elon Musk ætlar sér að taka yfir Twitter.
Elon Musk ætlar sér að taka yfir Twitter. Jakub Porzycki/NurPhoto via Getty Images)

Stjórn samfélagsmiðlafyrirtækisins Twitter hefur ákveðið að samþykkja kauptilboð auðkýfingsins Elon Musk í fyrirtækið.

Þetta kemur fram í tilkynningu Twitter til kauphallar þar sem stjórnin segist hafa samþykkt samkomulag þess efnis að Musk kaupi Twitter fyrir 44 milljarða dollara.

Kauptilboðið hljóðar upp á 54,2 dollara fyrir hvern hlut, það eru um sjö þúsund krónur á gengi dagsins í dag.

Hluthafar fyrirtækisins þurfa að ákveða hvort þeir taki tilboðinu eða ekki. Í tilkynningunni kemur fram að stjórn Twitter mæli með því að hluthafar samþykki kauptilboðið.

Musk á sjálfur fyrir 9,2 prósent hlut í fyrirtækinu sem hann eignaðist á dögunum. Gangi kaupin eftir mun Musk taka Twitter af hlutabréfamarkaði.

„Tjáningarfrelsi er hornsteinn lýðræðisins og Twitter er stafrænt umræðutorg þar sem lykilhugmyndir framtíðarinnar eru ræddar,“ er haft eftir Musk í tilkynningunni.

Segist hann ætla að bæta notendaupplifun á samfélagsmiðlinum, meðal annars með því að tryggja að auðkenndur einstaklingur sé á bak við hvern Twitter-reikning.


Tengdar fréttir

Musk getur ákveðið að gleypa eitruðu pilluna

Fólk skiptist í fylkingar eftir afstöðu þess til áforma ríkasta manns heims um að kaupa Twitter. Stjórn fyrirtækisins reynir nú allt til að stöðva auðkýfinginn, Elon Musk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×