Viðskipti erlent

Stjórnandi Nissan grunaður um fjármálamisferli

Kjartan Kjartansson skrifar
Ghosn er Brasilíumaður af líbönskum ættum en er franskur ríkisborgari.
Ghosn er Brasilíumaður af líbönskum ættum en er franskur ríkisborgari. Vísir/EPA

Japanski bílaframleiðandinn Nissan leysti Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóra, frá störfum sem stjórnarformann fyrirtækisins í morgun eftir að rannsókn þess leiddi í ljós að hann hefði ráðstafað fjármunum þess til eigin nota og gerst sekur um annars konar svik í starfi.



Í yfirlýsingu Nissan kemur fram að Ghosn og Greg Kelly, annar stjórnandi bílarisans, hafi um árabil vantalið tekjur sínar í yfirlýsingum til japönsku kauphallarinnar til að fela greiðslur sem hann fékk, að því er segir í frétt Reuters.



Ghosn er sagður hafa verið handtekinn í Tókýó vegna gruns um að hann hafi vantalið tekjur sínar. Þá hafa saksóknarar gert húsleit í höfuðstöðvum Nissan og fleiri stöðum í dag.



Fréttirnar eru sagðar hafa verið áfall í Japan þar sem Ghosn er einn fárra erlendra stjórnenda. Hann var vel liðinn eftir að hann stýrði Nissan úr fjárhagskröggum sem leiddu næstum því til gjaldþrots fyrirtækisins. Ghosn er einnig forstjóri franska bílaframleiðandans Renault.



Hlutabréf í bæði Nissan og Renault hafa fallið í verði á mörkuðum eftir að fréttirnar bárust í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×