Erlent

Spenna komin í kapphlaupið

Spenna hefur á ný færst í kapphlaupið um Hvíta húsið. Kannanir benda til þess að John Kerry hafi sótt verulega á í kjölfar kappræðna við George Bush í síðustu viku. Væri gengið að kjörborðinu í dag fengju bæði George Bush og John Kerry fjörutíu og níu prósent atkvæða, sé eitthvað að marka nýjustu könnun Gallups í Bandaríkjunum. Það væri að sjálfsögðu versta hugsanlega niðurstaða þar sem endalausar deilur um of- eða vantalin og ógild atkvæði fylgdu líklega í kjölfarið, eins og á Flórída fyrir fjórum árum. 57 prósent telja Kerry hafa staðið sig betur í kappræðunum en 25 prósent Bush. Fleiri töldu jafnframt að hann hefði sett rök sín fram með skýrum hætti og að hann væri betur gefinn. Bush hefur þó enn forskot á Kerry þegar stríðsreksturinn í Írak er annars vegar en Kerry er betur treyst í efnahagsmálum. Helmingi fleiri telja Bush líklegri en Kerry til að standa sig í baráttunni gegn hryðjuverkum. Og öfugt við það sem kannanir sýndu fyrir kappræðurnar gera aðspurðir nú ráð fyrir því að Kerry standi sig betur en Bush í næstu hrinu, sem verður áttunda þessa mánaðar, en þá verður opinn fundur haldinn í St. Louis þar sem gestum gefst færi til að spyrja frambjóðendurna. Báðir sendu frambjóðendurnir frá sér nýjar auglýsingar um helgina þar sem þeir túlka kappræðurnar á fimmtudaginn hvor með sínum hætti.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×