Viðskipti erlent

Stærsti bankinn til að fara á hausinn síðan árið 2008

Bjarki Sigurðsson skrifar
Viðskiptavinir SVB sem reyndu að taka út fé í morgun eftir að yfirvöld tóku yfir bankann.
Viðskiptavinir SVB sem reyndu að taka út fé í morgun eftir að yfirvöld tóku yfir bankann. Getty/Justin Sullivan

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa tekið yfir allar eigur Silicon Valley-bankans (SVB) en bankinn er sá sextándi stærsti í Bandaríkjunum. Viðskiptavinir bankans geyma um það bil 175 milljarða Bandaríkjadala þar, 24 þúsund milljarða íslenskra króna. 

Síðustu daga hefur bankinn verið að reyna að safna fé til að minnka tap á sölu sinni á eignum sem höfðu orðið fyrir áhrifum vaxtahækkana vestanhafs. Vandamál bankans ollu því að fjöldi viðskiptavina reyndi að koma öllu sínu fé úr bankanum sem og að hluthafar reyndu að selja öll sín hlutabréf. 

Samkvæmt BBC munu yfirvöld hafa tekið yfir eignirnar til að tryggja það að viðskiptavinir sem hafa tryggt fjárhæðir sínar hjá bankanum muni fá fé sitt. Síðan verða eignir bankans seldar og þannig verður fjármunum safnað til að greiða þeim sem ekki höfðu tryggt peninga sína. 

Virði hlutabréfa í bankanum hrundi um sextíu prósent í gær en virði fleiri banka hrundi einnig. Er það tengt við hrun SVB.

SVB var stofnaður árið 1983 en starfsmenn bankans eru 8.500 talsins. BBC greinir frá því að viðskiptavinir bankans geymi um það bil 24 þúsund milljarða króna þar en til samanburðar var verg landsframleiðsla Íslands árið 2022 tæplega fjögur þúsund milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×