Viðskipti erlent

United Airlines pantar 270 þotur

Árni Sæberg skrifar
Flugvélum United Airlines mun fjölga mikið á næstunni.
Flugvélum United Airlines mun fjölga mikið á næstunni. Getty

Bandaríska flugfélagið United Airlines tilkynnti nýlega að það hefði gengið frá stærstu flugvélapöntun í sögu félagsins.

Greinilegt er að stjórnendur flugfélagsins eru vongóðir um að covidvandræði flugiðnaðarins séu að baki. Pöntunin er frá bæði Boeing og Airbus og er rúmlega þrjátíu milljarða bandaríkjadala virði. Þrjátíu milljarðar dala eru tæpar fjórar billjónir króna.

Viðskiptin munu gera United kleift að endurnýja eldri og minni þotur flota síns á árunum 2022 til 2026. Þeim verður aðallega skipt út fyrir Boeing 737 Max.

Scott Kirby, forstjóri United, segir kaupin munu auka umsvif félagsins til að mæta uppgangi í flugsamgöngum. „Við búumst við að viðbótin við flotann muni hafa mikilvæg efnahagsleg áhrif, á samfélögin sem við þjónustum, í formi atvinnusköpunar, ferðaþjónustutekna og fraktflutninga.

Á hátindi heimsfaraldursins þurfti flugfélagið að setja 36 þúsund starfsmenn í tímabundið leyfi á kostnað alríkis Bandaríkjanna. Þá þáði félagið, líkt og önnur flugfélög, himinháa ríkisstyrki og lán á hagstæðum vöxtum til þess að komast hjá gjaldþroti.

„Þetta er hluti af áætlun sem nær frá nefi að stéli fyrir framtíðina og við höfum verið að vinna að henni í fjöldamörg ár,“ segir Andrew Nocella, viðskiptastjóri United Airlines.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×