Viðskipti erlent

Kaupþing selur breska veitingahúsakeðju á 3,5 milljarða

Skilanefnd Kaupþings hefur í samvinnu við þýska bankann Commerzbank selt bresku veitingahúsakeðjuna Ha Ha Bar & Grill fyrir 19,5 milljónir punda eða um 3,5 milljarða kr. Kaupandinn er kráa- og veitingahúsakeðjan Mitchells & Butler.

Í frétt um málið á Reuters segir að veitingastaðir Ha Ha Bar & Grill verði sameinaðir öðrum rekstri Mitchells & Butler og felldir inn í staði á borð við All Bar One, Browns veitingahúsin og fleiri rekstrareiningar Mitchells & Butler.

Fram kemur í fréttinni að Ha Ha Bar & Grill hafi selt yfir 100.000 steikarrétti og 70.000 fiskrétti á síðasta ári.

Ha ha Bar & Grill tilheyrði félaginu Bay Restaurant Group en það félag var um það bil síðasta eign fyrrum auðmannsins Robert Tchenquiz í Bretlandi.

Bay Restaurant Group hélt utan um veitingahúsakeðjur í eigu Tchenquiz en meðal þeirra voru La Tasca og Ha Ha Bar & Grill.

Kaupþing og Commerzbank eignuðust Bay Restaurant Group með því að breyta kröfum sínum á hendur félaginu í hlutafé í fyrra.

Eins og kunnugt er af fréttum var Tchenquiz einn af aðalviðskipta vinum Kaupþings á sínum tíma, átti hlut í Exista og sat í stjórn þess félags.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×