Viðskipti erlent

Telja evruna vera í dauðateygjunum

Evran verður dauð innan fimm ára og myntsamband Evrópu er í dauðateygjunum að mati 25 hagfræðinga sem svöruðu könnun Sunday Telegraph í Bretlandi. Hagfræðingarnir eru meðal fremstu í sinni röð í fjármálalífi Bretlands. Tólf þeirra spáðu því að evran myndi ekki lifa í núverandi mynd á næsta kjörtímabili í Bretlandi, sem eru fimm ár, á móti átta sem töldu að hún myndi lifa af.

Í frétt um könnunina á vef Sunday Telegraph segir að fyrir ári hefðu fáir í fjármálahverfinu City í London spáð evrunni þessum örlögum. Hins vegar hafi skuldavandinn í Grikklandi, á Spáni og í Portúgal, auk yfirlýsingar Angelu Merkel kanslara Þýskalands um að evran sé í tilvistarkreppu - snúið viðhorfum manna til málsins.

Tveir hagfræðinganna spáðu því að evran myndi lifa af en aðeins á kostnað þess að minnsta kosti eitt af evruríkjunum þyrfti að lýsa yfir þjóðargjaldþroti. Grikkland þótti líklegasta ríkið til að standa í þeim sporum. Þeir sem voru bjartsýnni á að myntsamstarf evruríkjanna myndi lifa af töldu þó að á því yrði verulegar breytingar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×