Viðskipti erlent

Neikvæðir hagvísar

Frá London.
Frá London.

Vísbendingar eru um viðvarandi samdrátt hjá sjö stærstu aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), samkvæmt mati sem birt var á föstudag.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal segir hagvísana ekki hafa verið neikvæðari síðan í olíukreppunni um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. OECD tekur fram að ekki sé útlit fyrir að viðsnúnings gæti í allra nánustu framtíð.

Þá er tekið fram að sérstaklega hafi tekið að halla undan fæti hjá stærstu þjóðum heims sem standi utan við stofnunina, svo sem í Brasilíu, Kína, Indlandi og í Rússlandi. Hafi þau dregist niður í svelg vegna alvarlegs samdráttar og minnkandi eftirspurnar hjá ríkustu og umsvifamestu þjóðum heims. Innflutningur hér dróst saman um 33 prósent eftir efnahagshrunið á milli fjórðunga á fjórða ársfjórðungi í fyrra en útflutningur jókst um 1,5 prósent.

Mælingu OECD á helstu hagvísum er ætlað að gefa upplýsingar um stefnubreytingar í hagsveiflum til skemmri tíma og gefa vísbendingar um það hvort hagkerfi séu að vaxa eða dragast saman. Stofnunin tók tölurnar fyrst saman árið 1965.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×