Viðskipti innlent

Samningaviðræður vegna leiðréttingarinnar enn ekki í höfn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson. vísir/anton brink
Upplýsingar um hvort og hversu mikil höfuðstólslækkun verður á lækkun íbúðalána munu liggja fyrir um næstu mánaðamót að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar, verkefnisstjóra höfuðstólslækkunarinnar.

Um 90-95 prósent þeirra sem um leiðréttinguna sóttu fá upplýsingar um lækkun höfuðstólslána um næstu mánaðarmót. Til stóð að greina frá þessum upplýsingum um miðjan október en seinkun hefur orðið á þar sem enn á eftir að ganga frá einhverjum lausum endum að sögn Tryggva.

„Þetta hefur tafist aðeins þar sem enn eru lausir endar sem við erum að hnýta. Það liggur fyrir frumvarp á alþingi sem er til meðferðar en það þarf að vera komið í gegn áður en þessar upplýsingar eru birtar,“ segir Tryggvi.

Frumvarpið sem um ræðir var lagt fram af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, á fimmtudag í síðustu viku. Um er að ræða breytingar á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána en breytingunum er ætlað að taka af allan vafa um að þau skuldalækkunarúrræði sem þegar hafa verið veitt leiði til frádráttar af þeirri upphæð sem leiðrétting ríkistjórnarinnar gerir ráð fyrir. Í athugasemdum með frumvarpi Bjarna segir að frádrátturinn eigi að vera óháð fyrirkomulagi eða aðferð einstakra lánveitenda við skuldalækkunina. Ekki eigi að skipta máli hvort aðgerðirnar hafi komið til fyrir eða eftir sértæka skuldaaðlögun og 110 prósent leiðarinnar.

Samningaviðræður við viðskiptabankanna eru enn ekki í höfn en þær haldast í hendur við birtingu upplýsinga um lækkun höfuðstólslána. Tryggvi segir viðræðurnar þó ganga vel.

„Viðræður hafa staðið yfir og það er engin ástæða til að ætla annað en að þeim ljúki í góðum tíma þannig að þetta verður algjörlega hnökralaust,“ segir Tryggvi.

Frestur til að sækja um leiðréttingu rann út 1.september og bárust hátt í 70 þúsund umsóknir frá rúmlega 100 þúsund manns í 61 landi. Heildarumfang niðurfellingarinnar er metið á um 150 milljarða króna sem dreifist yfir fjögurra ára tímabil. Leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána nema um 80 milljarða króna og höfuðstólslækkun með nýtingu séreignarlífeyrissparnaðar um 70 milljörðum króna.




Tengdar fréttir

20 þúsund nota séreignina í íbúðalán

Nær þrettán þúsund manns hafa sótt um að greiða séreignarsparnað inn á fasteignalán. Sjö þúsund eru í ferli. 70 þúsund manns vilja fá verðtryggð lán leiðrétt.

Dregst um nokkra daga

„Það getur farið svo að það tefjist um einhverja daga, viku eða svo, að fólk geti sótt um skuldaleiðréttingar. Það breytir hins vegar engu um að niðurstöður aðgerðanna munu liggja fyrir eftir fyrsta september,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri skuldaniðurfellinga ríkistjórnarinnar.

Landsmenn geta ekki sótt um niðurfellingu á morgun

Málið er ekki á dagskrá á þingi fyrr en á morgun og því lítið sem bendir til þess að opnað verði fyrir umsóknir þá,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson verkefnisstjóri um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána.

Ráðstöfun séreignarsparnaðar gagnast ekki öllum

"Þeir sem standa tæpt fjárhagslega og eiga hættu á að fara í gjaldþrot, til dæmis þeir sem búa við mikla áhættu, atvinnurekendur með sjálfskuldaábyrgðir og annað slíkt, við ráðleggjum þeim ekki að sækja um. Ef fólk fer í gjaldþrot þá missir það allt sem það hefur lagt í þetta.“

69 þúsund umsóknir

Áfram verður tekið við umsóknum um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán og hafa 27.500 einstaklingar þegar sótt um þann hluta aðgerðar stjórnvalda um lækkun höfuðstóls húsnæðisskulda.

Fjöldi umsókna ræður endanlegri niðurstöðu

Umsóknir um höfuðstólslækkun skutust yfir tuttugu þúsund í gær. Innlit á leiðréttingarvef eru frá 74 löndum. Sumarið fer í útreikninga og forritasmíð hjá Ríkisskattstjóra. Tæknileg úrlausnarefni ráða tímasetningunni á birtingu útreiknings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×