Innlent

Stóðu vörð um moskuna vikurnar eftir árásirnar á Tvíburaturnana

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ónefnd moska vestanhafs og Laufey Steingrímsdóttir.
Ónefnd moska vestanhafs og Laufey Steingrímsdóttir.
„Mér fannst ég þurfa að deila þessari sögu einmitt núna,“ segir næringarfræðingurinn Laufey Steingrímsdóttir í innsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Töluverð umræða hefur verið í íslensku samfélagi undanfarnar vikur vegna mosku sem til stendur að byggja við Skeifuna í Reykjavík. Er óhætt að segja að skiptar skoðanir séu á byggingu bænahússins.

Laufey nam á sínum tíma við University of Washington í Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Í norðurhluta borgarinnar bjó vinafólk hennar, aldraðir Vestur-Íslendingar að nafni Ray og Doris Olson. Laufey segir að þau hafi verið henni nokkurs konar fósturfjölskylda, og sé enn.

Í hverfi þeirra Ray og Doris var byggð moska fyrir um fimmtán árum. Tveimur árum síðar var ráðist á tvíburaturnana í New York.

„Nágrannar moskunnar, undir forystu þeirra Dorisar og Rays, hópuðust það sama kvöld til moskunnar með blóm, kerti og mat, og skiptust á um að standa vörð um moskuna alla nóttina,“ segir Laufey. Þau hafi haldið uppteknum hætti vikum saman, sannkristnir nágrannar sem gættu bænahúss nágranna sinna í hverfinu. Þá pössuðu þau að fólkið sem þar kom saman yrði ekki fyrir aðkasti vegna þess ótta og haturs sem greip víða um sig.

Laufey segir frá því að nokkrum árum síðar hafi Ray, þá háaldraður, verið að slá grasið fyrir utan húsið sitt í hverfinu. Stór trukkur hafi komið á fleygiferð og keyrt gamla manninn niður. Slasaðist hann mikið, náði sér aldrei fullkomlega og er nú látinn.

„Þegar Doris kona hans kom heim frá sjúkrahúsinu seint um kvöldið eftir slysið var hins vegar búið að hreinsa allt blóð og önnur ummerki við húsið þeirra. Þar höfðu nágrannarnir úr moskunni verið að verki og vildu þar með sýna vinum sínum og velgjörðarmönnum þakklæti fyrir umhyggjuna um árið,“ segir Laufey.

Í mörg ár þar á eftir, raunar allt þar til Doris og Ray fluttu á öldrunarheimili, hafi svo múslimarnir úr moskunni séð um að slá blettinn svo aldraðir íbúarnir þyrftu ekki að stofna sér í hættu við garðsláttinn. Minnir Laufey á að flest fólk sé gott sama hvaða trúarbrögð þau aðhyllist.

„En við getum fyrst og fremst búist við vináttu og velvild þess ef við sýnum hana sjálf.“


Tengdar fréttir

Lítil saga um mosku og gott fólk

Fyrir um 15 árum síðan var byggð moska í grónu íbúahverfi í norðurhluta Seattle. Í þessu hverfi bjó m.a. vinafólk mitt frá háskólaárunum, aldraðir Vestur-Íslendingar, Ray og Doris Olason, sem urðu mér nokkurs konar fósturfjölskylda á námsárunum – og eru raunar enn.

Salmann segir að tala þurfi samkynhneigða til

Konur geta verið höfuð fjölskyldunnar, þjófar ættu að missa hönd og samkynhneigða þarf að tala til. Þetta sagði Salmann Tamimi í samtali við Íslandi í dag sem sýnt var á Stöð 2 í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×