Erlent

Barist við hlið Palmyra

Samúel Karl Ólason skrifar
Bardagar eru nú sagðir geisa við rústirnar í Palmyra.
Bardagar eru nú sagðir geisa við rústirnar í Palmyra. Vísir/AFP
Yfirmaður UNESCO hefur miklar áhyggjur af bardögum sem geysa nú á milli vígamanna Íslamska ríkisins og stjórnarhers Sýrlands nærri rústum borgarinnar Palmyra í Sýrlandi. Irina Bokova, ræddi við blaðamenn í Beirút í gær. Hún sagði að stríðandi fylkingar ættu ekki að nota minjar sem þessar í hernaðarlegum tilgangi.

Talið er að fyrsta byggð hafi fyrst byrjað í Palmyra á milli tvö og þúsund árum fyrir krist. Þar er stór vin og samkvæmt al-Jazeera er talið að um hundrað þúsund manns sem flúið hafa átökin í Sýrlandi haldi til í og við rústirnar.

Áður en borgarastyrjöldin hófst fyrir fjórum árum var Palmyra helsti ferðamannastaður Sýrlands. Rústirnar eru margar hverjar mjög heillegar, en flestar eru um tvö þúsund ára gamlar. Þær eru frá þeim tíma þegar Rómverjar stjórnuðu svæðinu, en Palmyra var miðstöð verslunar og menningar á svæðinu.

Þar má með sanni segja að heimar hafi mæst og eru margar byggingar þar sem eru blanda af grísk-rómverskum byggingarstíl og persneskum.

Óbætanlegur fjársjóður

AP fréttaveitan hefur eftir Bokova að hún hafi biðlað til ISIS og hersins að berjast ekki í rústunum. „Rústirnar hafa þegar skemmst í fjögurra ára átökum,“ sagði hún og bætti við að rústirnar væru í raun óbætanlegur fjársjóður sýrlensku þjóðarinnar og heimsins.

Á síðustu árum er búið að ræna mörgum minjum úr rústunum og safni sem er þar. Þá hafa miklar skemmdir verið unnar á rústunum sjálfum. Koma íslamska ríkisins boðar ekki gott, þar sem þeir eru þekktir fyrir að eyðileggja fornar styttur sem þeir segja að hylli fölskum guðum.

Þá gjöreyðilögðu samtökin tvær þúsunda ára gamlar rústir í Írak fyrr á árinu. Bokova sagði að aðgerðir sem þessar ætti að fordæma sem stríðsglæpi. Stjórnvöld í Sýrlandi hafa beðið alþjóðasamfélagið um að koma rústunum til bjargar. Al-Jazeera segir að samkvæmt gervihnattamyndum hafi fornar minjar verið skemmdar á 290 minjasvæðum í Sýrlandi.

ISIS eru nú sagðir flytja liðsauka frá nærliggjandi héruðum, en herinn mun vera að gera það einnig. Þar að auki segist herinn gera loftárásir gegn ISIS á svæðinu.

Fyrir stríð var Palmyra helsti ferðamannastaður Sýrlands.Vísir/AFP
Hér má sjá myndband sem sýnir hve mikilfenglegar rústirnar í Palmyra eru.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×