Erlent

Skoða að færa Mónu Lísu í eigið her­bergi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Forstöðukona Louvre segir í kring um tuttugu þúsund manns heimsækja málverkið daglega.
Forstöðukona Louvre segir í kring um tuttugu þúsund manns heimsækja málverkið daglega. EPA

Listasafnið Louvre skoðar nú að færa málverkið af Mónu Lísu í annað rými á safninu. Forstöðukona safnsins segir að með því að færa verkið fengju gestir betri upplifun á því. 

Laurence des Cars forstöðukona Louvre-safnsins segir marga gesti heimsækja safnið til þess eins að sjá málverkið af Mónu Lísu. 

„Það angrar okkur að geta ekki gefið gestum bestu mögulegu upplifunina, og það er svoleiðis í tilfelli Mónu Lísu. Mér þykir brýnt að finna einhverja lausn á þessu,“ segir des Cars í samtali við franska miðilinn Inter.

Hún segir að samtal við Menningarmálaráðuneyti Frakklands eigi sér nú stað vegna mögulegra breytinga. 

Málverkið hangir í hinum svokallaða Ríkissal (Salle des États) sem er stærsta rými safnsins. En í sama rými eru nokkur önnur sextándu aldar málverk, þar á meðal Brúðkaupið í Kana eftir Paolo Veronese, sem er stærsta verkið á safninu. Nú stendur til að gefa því sérrými.

Nærri níu milljónir heimsóttu Louvre safnið árið 2023, en des Cars segir áttatíu prósent þeirra standa lengi í mikilli mannmergð til þess að freista þess að sjá málverkið og jafnvel taka af sér eina sjálfu með henni. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×