Fréttastofa RÚV neyddist til að hætta við að flytja nánari fréttir úr yfirliti Kaupþings yfir helstu skuldunauta bankans eftir að sýslumaðurinn í Reykjavík setti lögbann á umfjöllun RÚV um málið. Úrskurður sýslumanns lá fyrir fimm mínútum áður en fréttatími RÚV hófst.
Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag fór Kaupþing fram á lögbann sem sýslumaðurinn féllst á.
Lögbannið er bráðabirgðaaðgerð sem stendur í viku, en þá þarf að höfða staðfestingarmál fyrir dómstólum sem skera úr um lögmæti birtingar upplýsinganna.
Sigurður Líndal taldi hugsanlegt að lögbann af þessu tagi tæki til umfjöllunar allra fjölmiðla á landinu, en á fréttavef RÚV er tekið fram að það eigi eingöngu við fréttaflutning Ríkisútvarpsins.
Aðrir miðlar geti því áfram notað gögnin að vild, auk þess sem þau eru öllum aðgengileg hér, líkt og áður hefur komið fram.