Innlent

„Hvar er reiknivélin?“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vísir/Daníel
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, tókust á í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

„Spurningin er einföld. Hvar er reiknivélin? Þegar maður pantar sér pítsu þá veit maður hvort maður fær senda 18 tommu, 9 tommu eða brauðstangir. En almenningur getur ekki fengið upplýsingar um það hvað hver og einn fær í skuldaleiðréttingu?“ sagði Helgi Hjörvar.

Loforð dregin til baka

Helgi var harðorður og gagnrýndi tillögur ríkisstjórnarinnar töluvert og þá einna helst reiknivélina sem lofað var að fólk gæti nýtt sér til að reikna út hversu há niðurfærslan yrði. Henni hafi verið lofað þegar skuldaniðurfærslurnar voru kynntar en það loforð dregið til baka þegar það var kynnt í annað sinn í Iðnó.

Þingmaður reyni að ala á tortryggni

„Það virðist vera að háttvirtur þingmaður hafi það að sérstöku markmiði, og þá sérstaklega undanfarna daga, að reyna að gera sem flesta óánægða,“ sagði Sigmundur Davíð í andsvari sínu. Hann sagði Helga hafa það að leiðarljósi að reyna að ala sem mest á tortryggni og gera sem flesta hópa óörugga  og óánægða.

Þá sagði hann að rangfærslurnar hafi snúist um sama hlutinn og að það sem kynnt hafi verið í Hörpu væri það sem síðan hafi verið útfært.

Helgi sagði að reiknivél sem sett var upp á netinu hafi verið gerð af áhugamönnum og hafi hún verið útfærð á þann hátt sem skuldaniðurfærslurnar voru kynntar, af áhugamennsku. Þar hafi fólk mátt búast við að fá 13% en nú séu það 5%.

„Þetta er gríðarlega stór liður í því að koma íslensku efnahagslífi og íslensku samfélagi aftur á réttan kjöl.  Háttvirtur þingmaður ætti að leyfa sér að gleðjast yfir því í stað þess að reyna að gera sem flesta óánægða og óörugga,“ sagi Sigmundur.

Í þann mund heyrðist kall úr salnum: „Hvar er reiknivélin?“


Tengdar fréttir

Lækkun vaxta jafnvel besta búbótin

Sigmundur Davíð var gestur í Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi skuldaleiðréttingu og meðal annars vaxtastefnu Seðlabankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×