Innlent

„Alþingi eitt getur tekið ákvörðun um vopnaburð lögreglu“

Samúel Karl Ólason skrifar
Samsett mynd
Forsvarsmenn lögreglu geta ekki tekið sjálfir ákvörðun um aukinn vopnaburð lögreglumanna. Þetta er niðurstaða Gísla Tryggvasonar, lögmanns, í pistli sem hann birti á vefnum Herðubreið í gær. Hann segir nauðsynlegt að leiðrétta stjórnendur lögreglunnar.

Gísli segist einnig hafa verið mjög hissa á málflutningi lögreglunnar og hann hefði haldið að ekki þyrfti lögfræðing til að benda á að lögreglumenn, lögreglustjórar, ríkislögreglustjórar eða lögreglumálaráðherra „gætu auðvitað ekki bara ákveðið (með leynd og að því virðist blekkingum) upp á sitt eindæmi að vopnvæða lögreglu í alveg nýjum mæli.“

Sérfræðingarnir ekki þeir sem halda eiga á byssunum

Sérstaklega bendir hann á að Ísland hafi sett í stofnsáttmála sinn árið 1918 að það skyldi vera ævarandi hlutlaust. Að vopnuð stórátök hafi ekki orðið í um þúsund ár. Að blóðug átök síðustu hundrað ára megi telja á fingrum annarrar handar og í því sambandi nefnir hann Gúttóslaginn árið 1932 og búsáhaldabyltinguna. Að morð hafi verið eitt til tvö á ári síðustu áratugina og að enginn hafi verið drepinn af lögreglu fyrr en í fyrra.

Hann segist telja út frá greinum félagsvísinda að „sérfræðingarnir“ í málinu væru einmitt ekki þeir sem hugsanlega eigi að halda á vopnunum.

„Kenning mín er, sem sagt, að í ríki með okkar sögu og stjórnskipun er óhugsandi annað en að lýðræðislega kjörnir fulltrúar á löggjafarþingi ákveði slíkan vopnaburð formlega – gjarnan að höfðu samráði við sérfræðinga auk almennings,“ skrifar Gísli.

Hann segir það hafa gengið fram af sér þegar biskup þjóðkirkjunnar hafi talið sjálfdæmi um vopnaburð lögreglu nánast sjálfgefið. Þar sem Íslendingar eigi að treysta lögreglunni.

„þetta leyfir helsti trúarleiðtogi kristinnar kirkju á Íslandi sér að segja örfáum mánuðum eftir að fyrsti borgarinn var skotinn til dauða af lögreglu við sorglegar aðstæður sem (sumir) fjölmiðlar hafa greint svo vel frá að ég tel á grundvelli frétta að réttarvörslukerfið sé ófullkomið og mistækt í besta falli.“

Lög þarf til

Gísli telur augljóst að samkvæmt íslenskum stjórnlögum þurfi sett lög frá Alþingi til að vopnvæða lögreglu. Enn frekar til að auka vopnvæðingu lögreglu að umfangi og einkum styrkleika og hvað varði aðgengi og bærni.

„Jafnvel þótt ég hefði rangt fyrir mér um að sett lög þurfi beinlínis til að ákveða vopnaburð lögreglu og lagaáskilnaðarregla ætti ekki við hljóta allir lögfræðingar og eiginlega allir lýðræðissinnar að samþykkja að svonefnd lögmætisregla hljóti að gilda um vopnaburð lögreglu; umrædda reglu má ef til vill skýra með aldagamalli enskri grundvallarreglu um „rule of law“ nú eða bara úr okkar gömlu þjóðveldislögum: Með lögum skal land byggja.“

Ekki nægilegt gegnsæi

Þá snýr Gísli að gegnsæi og segir hann að afar vafasemt sé að venja um skotvopnaburð lögreglu hafi myndast. Hann segir marga lögreglumenn og aðra sem styðji vopnvæðingu hafna því að um verulega breytingu sé að ræða. Að lögreglan hafi haft aðgengi að vopnum í áratugi og það hefðu allir átt að vita.

„Ég vissi að lögregla hefði lengi haft kylfu og nýverið fengið sprey, eins og frægt er orðið. Ég hélt hins vegar að svonefnd víkingasveit eða sérsveitin væri sú sem fyrst og fremst væri þjálfuð og viðbúin með meiri háttar vopnum á borð við skotvopn; sem harður landsbyggðarsinni í 30 ár hefði ég sjálfsagt talið, ef ég hefði hugsað út í það, að í helstu þéttbýliskjörnum utan stórhöfuðborgarsvæðisins (svo sem Akureyri, Egilstöðum, Höfn og Ísafirði) væru einhvers konar víkingasveitarígildi eða einstakir sérsveitarmenn, en nú er ég eiginlega frekar að lýsa því hvernig þetta ætti að mínu mati að vera en hvernig þetta var eða ég hélt að vopnaburður væri hjá lögreglu víða um land.“

Gísli segir niðurstöðu sína um hver hafi heimild eða vald til þess að taka ákvörðun um aukinn vopnaburð lögreglu á Íslandi vera ótvíræða.

„Alþingi eitt getur tekið ákvörðun um aukinn vopnaburð lögreglu.“

Pistil Gísla má lesa hér.


Tengdar fréttir

Aukið við vopnabúnað lögreglunnar

Verið er að auka við vopnabúnað íslensku lögreglunnar. Stefnt er að því að allir lögreglubílar landsins verði búnir Glock 17-hálfsjálfvirkri skammbyssu og MP5-hríðskotabyssu.

Ráðherrar sverja af sér vélbyssur

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segist ekki haft nein afskipti af komu 250 MP5-hríðskotabyssa hingað til lands. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir að lögreglan hafi heimild til að endurnýja búnað sinn án þess að ráðherra skipti

Stefnubreyting ef vopna á lögregluna

Fyrrveraandi innanríkisráðherra segir það hafa verið rætt í mörg ár hvort vopna ætti almennu lögregluna. Yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir ekki búið að ákveða að hafa vopn í öllum lögreglubílum.

MP5 sögð öruggari en skammbyssa

Ekkert lögregluembættanna hefur enn farið fram á að fá MP5-hríðskotabyssur til afnota en yfirmaður lögreglunnar á Akureyri segir hríðskotabyssurnar öruggari en skammbyssur og því verði líklega farið fram á að fá þær.

Fáum sendan reikning fyrir byssunum

Reikningur verði sendur fyrir 250 MP5 hríðskotabyssum sem Landhelgisgæslan telur sig hafa fengið að gjöf frá norska hernum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×