Enski boltinn

Toure hefði unnið til verðlauna ef hann væri hvítur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Umboðsmaður Yaya Toure segir hann ekki njóta sammælis vegna hörundslitar síns.
Umboðsmaður Yaya Toure segir hann ekki njóta sammælis vegna hörundslitar síns. Vísir/Getty
Dimitri Seluk, umboðsmaður Yaya Toure, miðjumanns Englandsmeistara Manchester City og landsliðs Fílabeinsstrandarinnar, segir í samtali við The Times að ef skjólstæðingur sinn væri ekki dökkur á hörund hefði hann unnið til einhverra af þeim stóru einstaklingsverðlauna sem hann hefur verið tilnefndur til að undanförnu.

"Ef hann væri hvítur er ég handviss um að hann hefði unnið til þessara verðlauna," sagði Seluk.

"Ég vil ekki tala of mikið um rasisma og pólitíkina í fótboltanum, en Toure fær ekki það lof sem hann á skilið," sagði umboðsmaðurinn.

Toure varð þriðji í vali á leikmanni ársins á Englandi, bæði hjá Leikmannasamtökunum og samtökum blaðamanna. Þá varð miðjumaðurinn í 12. sæti í valinu á besta leikmanni heims 2013, en Seluk segir með ólíkindum að Toure hafi ekki verið á meðal þeirra efstu í því vali.

Leikmaðurinn hefur sjálfur sagt að það sé erfitt fyrir Afríkumenn að öðlast þá viðurkenningu sem þeir eiga skilið, og því er Seluk sammála.

"Lionel Messi er besti leikmaður sögunnar og ég ber mikla virðingu fyrir bæði Cristiano Ronaldo og Franck Ribery. Það gerir Yaya einnig. En afrískir leikmenn eiga erfitt með að vinna til þessara verðlauna. FIFA verður að gera einhverjar breytingar."

Seluk segir ennfremur ekki geta ábyrgst að Toure verði enn í herbúðum Manchester City þegar leikmannaglugginn lokast um mánaðarmótin ágúst/september.

"Þú veist aldrei hvað gerist í fótboltanum. Ég mun hitta Yaya í nokkra daga áður en hann fer með Manchester City í æfingagerð til Bandaríkjanna og þá munum við tala saman.

"Við sjáum hvað gerist. Manchester City þyrfti að taka ákvörðun ef tilboð bærist frá félögum á borð við PSG eða Real Madrid," sagði umboðsmaðurinn, en fregnir sem hafa borist að undanförnu benda ekki til þess að hann sé alsæll í herbúðum Englandsmeistaranna.

Toure var t.a.m. ósáttur með að enginn hjá félaginu skyldi hafa óskað honum til hamingju með 31. árs afmælið hans.

Þá sagði Fílbeinsstrendingurinn að hann hefði ekki fengið leyfi frá City til að vera við dánarbeð bróður síns sem lést í síðasta mánuði eftir baráttu við krabbamein.


Tengdar fréttir

Umboðsmaður Toure staðfestir fýluna

Umboðsmaður Yaya Toure segir framferði forráðamanna Manchester City ógeðfellt en þeir óskuðu kappanum ekki til hamingju með afmælið á dögunum.

Toure dregur úr fyrri yfirlýsingum

Framtíð Yaya Toure hjá Man. City hefur verið í óvissu síðan umboðsmaður hans gerði allt vitlaust með ummælum um að hann nyti ekki virðingar hjá félaginu.

Yaya óánægður með viðbrögð City

Yaya Toure er óánægður að Manchester City skuli hafa skipað honum að ferðast með félaginu þegar hann óskaði þess að vera við dánarbeð bróður síns sem lést á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×