Enski boltinn

„Kem því ekki í orð hversu lé­leg frammi­staðan var“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Moyes var vægast sagt ósáttur við Hamrana sína í gær.
David Moyes var vægast sagt ósáttur við Hamrana sína í gær. getty/Rob Newell

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham United, skammaðist sín og gagnrýndi leikmenn liðsins eftir tapið stóra fyrir Crystal Palace, 5-2, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

West Ham féll úr leik fyrir Bayer Leverkusen í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn og mætti svo Palace á Selhurst Park í gær. Hamrarnir sáu aldrei til sólar í leiknum og lentu 5-0 undir.

Þeir töpuðu leiknum á endanum, 5-2, og Moyes baunaði á sína menn eftir leikinn.

„Fyrri hálfleikurinn var það versta sem ég hef séð til okkar. Við höfum átt nokkra svona svipaða leiki á tímabilinu þar sem ég trúi ekki því sem ég sé frá mínu liði,“ sagði Skotinn.

„Ég held að liðið hafi ekki sýnt jafn slaka frammistöðu í 3-4 leikjum í vetur þau þrjú ár sem ég hef verið hérna. Fyrri hálfleikurinn var óásættanlegur. Við höfum tapað mörgum leikjum og sumum stórt en tilfinningin hefur ekki verið eins og í ár.“

Moyes hélt áfram að gagnrýna sína menn.

„Ég er ekki að afsaka neitt . Leikmönnunum var hrósað fyrir frammistöðuna á fimmtudaginn. En ég kem því ekki í orð hversu léleg frammistaðan í dag var,“ sagði Moyes.

„Ég er vonsvikinn fyrir hönd stuðningsmannanna sem komu að sjá okkur og í sannleika sagt skammast ég mín fyrir að tala fyrir hönd liðsins og hvernig þeir spiluðu en ég er stjórinn. Ég verð að segja að ég hef ekki stýrt mörgum liðum á ferlinum sem hafa spilað svona.“

Moyes verður samningslaus í sumar og óvíst er hvort hann heldur áfram hjá West Ham. Hann tók í annað sinn við liðinu í desember 2019 og stýrði því til sigurs í Sambandsdeildinni í fyrra. Það var fyrsti stóri titill West Ham í 43 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×