Viðskipti innlent

SPRON-málið: Ekkert óvenjulegt við lánveitingu SPRON til Exista

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vitni komu fyrir dóm í dag.
Vitni komu fyrir dóm í dag. Vísir/GVA
Erlendur Hjaltason, fyrrum stjórnarformaður SPRON og annar tveggja forstjóra Exista, sagði fyrir dómi í dag að ekkert óvenjulegt hefði verið við tveggja milljarða króna lánveitingu sjóðsins til Exista þann 30. september 2008.

Fjórir fyrrverandi stjórnarmenn SPRON eru ákærðir ásamt fyrrverandi forstjóra sjóðsins vegna lánveitingarinnar en sérstakur saksóknari telur fimmmenningana hafa farið út fyrir heimildir sínar með lánveitingunni og teflt fé sparisjóðsins í hættu.

Erlendur er ekki einn af ákærðu í málinu þar sem hann vék af stjórnarfundi áður en stjórnin greiddi atkvæði um lánið en kom fyrir dóminn í dag sem vitni.

Veit ekki hvernig lánsbeiðnin kom til

Birgir Jónasson, aðstoðarsaksóknari, bað Erlend um að gera grein fyrir láninu. Hann sagði lánveitinguna hafa komið upp á stjórnarfundinum, hún hafi verið rædd og þá hafi hann vikið af fundinum. Erlendur kvaðst ekki vita hvernig lánsbeiðnin kom til og mundi ekki eftir að hafa komið að henni.

Þá vissi Erlendur ekki hvert var tilefni lánveitingar en sagði það algengt að fjárstýring SPRON væri að sýsla með sambærileg lán, svokölluð peningamarkaðslán.

Lánið var án sérstakra trygginga og sagði Erlendur að öll lántaka Exista hefði verið með þeim hætti, það er að veð fyrir lánum félagsins hafi verið í efnahagsreikningi þess.

SPRON átti laust fé samkvæmt skýrslum

Erlendur var svo spurður hvort hann myndi eftir því hver hefði kynnt lánsbeiðnina á fundinum. Erlendur sagðist ekki hafa komið að kynningunni sjálfur en það gæti verið að hann hafi fengið einhverjar spurningar á fundinum um stöðu Exista sem hann hefði þá svarað.

Aðspurður um stöðu SPRON á þessum tíma og hvort til hafi verið laust fé til að veita lánið sagði Erlendur að samkvæmt skýrslum hafi verið til fé fyrir lánveitingunni.

Fram kom í máli Erlendar að hann hefði átt stofnfé í SPRON og hlutafé í Exista. Þá var honum kunnugt um að VÍS var að fullu í eigu Exista en fyrir liggur í málinu að sama dag og SPRON lánaði Exista milljarðana tvo lagði VÍS tvo milljarða inn í sparisjóðinn.

Erlendur kvaðst ekki hafa vitað af innláninu á sínum tíma heldur frétt af því eftir þá. Þá sagðist hann ekki vita til þess að það hafi verið einhverjar hömlur á því að VÍS gæti lánað Exista fé.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×