Viðskipti innlent

Oculis komið á markað

Árni Sæberg skrifar
Einar Stefánsson hringdi Kauphallarbjöllunni í morgun. Hann hefur byggt upp Oculis ásamt Þorsteini Loftssyni frá stofnun árið 2003.
Einar Stefánsson hringdi Kauphallarbjöllunni í morgun. Hann hefur byggt upp Oculis ásamt Þorsteini Loftssyni frá stofnun árið 2003. Vísir/Vilhelm

Viðskipti með verðbréf líftæknifyrirtækisins Oculis Holding AG eru hafin í Kauphöllinni. Félagið var áður skráð á markað í Bandaríkjunum.

Í tilkynningu frá Kauphöll segir að Oculis sé alþjóðlegt líftæknifyrirtæki sem hafi það að markmiði að þróa augnlyf sem bæta sjón og draga úr einkennum alvarlegra augnsjúkdóma. Oculis tilheyri heilbrigðisgeiranum og sé fjórða félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic og Baltic í ár.

Í þróun hjá Oculis séu ný augnlyf sem geti haft byltingarkennd áhrif. Þar á meðal sé OCS-01, augndropar byggðir á Optireach® tækni félagsins. Klínískar rannsóknir á OCS-01 hafi meðal annars sýnt verulegan árangur í meðferð á sjónhimnubjúg vegna sykursýki. Þá sé félagið með lyfið OCS-02 í klíniskum prófunum en það séu augndropar sem innihalda TNF-hamlara líttæknilyf, sem verki gegn augnþurrki og bólgum í yfirborði augans. 

Loks megi nefna lyfið OCS-05, sem bundnar séu vonir við að geti hjálpað til við meðhöndlun á hrörnun eða rýrnun taugavefs í auga sem tengist sjúkdómum eins og sjóntaugarbólgu. Markmið Oculis sé að bæta heilsu og lífsgæði sjúklinga um allan heim með því að þróa lyf sem bæta sjón og augnheilsu.

Forstjórarnir hæstánægðir með skráninguna

„Við erum mjög ánægð með að Oculis, sem á rætur sínar að rekja til íslensks hugvits sé núna tvískráð á Íslandi og í Bandaríkjunum. Við erum afar þakklát fyrir þann mikla áhuga sem fjárfestar hafa sýnt félaginu en skráningin hér styður vel við framtíðaráform okkar um að bæta meðferð alvarlegra augnsjúkdóma. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna og hlökkum til að vinna með þeim fram veginn,“ er haft eftir Riad Sherif, forstjóra Oculis.

„Við bjóðum Oculis velkomið á Aðalmarkað Nasdaq Iceland Iceland. Það er mjög ánægjulegt að félagið hafi valið tvískráningu á íslenska markaðinn, sem gefur íslenskum fjárfestum tækifæri til að taka þátt í vegferðinni þeirra. Við óskum öllum hjá Oculis og hluthöfum þess góðs gengis og hlökkum til styðja við félagið með auknum sýnileika á íslenska markaðnum,“ er haft eftir Magnúsi Harðarsyni, forstjóra Nasdaq á Íslandi.


Tengdar fréttir

Ocu­lis að klára milljarða hluta­fjár­út­boð og á­formar skráningu í Kaup­höllina

Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis, stofnað af tveimur íslenskum prófessorum, er núna á lokametrunum með að klára stóra hlutafjáraukningu frá meðal annars íslenskum fjárfestum og setur stefnuna í kjölfarið á skráningu í Kauphöllina hér heima. Félagið yrði þá tvískráð – því var fleytt á markað í Bandaríkjunum fyrir rétt rúmlega einu ári – en það er í dag með markaðsvirði upp á liðlega sextíu milljarða króna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×